Heimskringla/Ólafs saga helga/163

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Björn er maður nefndur, gauskur að kyni. Hann var vinur og kunningi Ástríðar drottningar og nokkuð skyldur að frændsemi og hafði hún fengið honum ármenning og sýslu á ofanverðri Heiðmörk. Hafði hann og yfirsókn í Eystri-Dali. Ekki var Björn konungi kær og ekki var hann maður þokkasæll af bóndum.

Það hafði og að borist í byggð þeirri er Björn réð fyrir að þar urðu hvörf stór á nautum og á svínum. Lét Björn þar kveðja þings til og leitaði þar eftir hvörfum. Hann kallaði þá menn líklegsta til slíkra hluta og illbregða er sátu í markbyggðum fjarri öðrum mönnum. Veik hann því máli til þeirra er byggðu Eystri-Dali. Sú byggð var mjög sundurlaus, byggt við vötn eða rjóður í skógum en fástaðar stórbyggðir saman.