Heimskringla/Ólafs saga helga/164

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Rauður hét maður er þar byggði í Eystri-Dölum. Ragnhildur var nefnd kona hans, Dagur og Sigurður synir. Þeir voru hinir efnilegstu menn. Þeir voru staddir á þingi því og héldu svörum upp af hendi þeirra Dæla og báru þá undan sökum.

Birni þóttu þeir láta stórlega og vera drambsmenn miklir að vopnum og klæðum. Björn sneiddi ræðunni á hendur þeim bræðrum og taldi þá eigi ólíklega til að hafa slíkt gert. Þeir synjuðu fyrir sig og sleit svo því þingi.

Litlu síðar kom til Bjarnar ármanns Ólafur konungur með liði sínu og tók þar veislu. Var þá kært fyrir konungi það mál er fyrr var uppi haft á þingi. Sagði Björn að honum þóttu Rauðssynir líklegstir til að valda slíkum ótila. Þá var sent eftir sonum Rauðs.

En er þeir hittu konung þá taldi hann þá óþjóflega menn og bar þá undan kennslum þessum. Þeir buðu konungi til föður síns að taka þar þriggja nátta veislu með öllu liði sínu. Björn latti ferðarinnar. Konungur fór eigi að síður.

Að Rauðs var hin prúðlegsta veisla. Þá spurði konungur hvað manna Rauður væri eða kona hans.

Rauður segir að hann var maður sænskur, auðigur og kynstór. „En eg hljópst þaðan í brott,“ segir hann, „með konu þessa er eg hefi átt síðan. Hún er systir Hrings konungs Dagssonar.“

Þá vaknaði konungur við ætt þeirra beggja. Fann hann það að þeir feðgar voru menn forvitrir og spurði þá eftir íþróttum sínum.

Sigurður segir að hann kann drauma að skilja og að deila dægrafar þótt engi sæi himintungl. Konungur reyndi þessa íþrótt og var það sem Sigurður hafði sagt.

Dagur fann það til íþrótta sér að hann mundi sjá kost og löst á manni hverjum er honum bar fyrir augu ef hann vildi hug á leggja og að hyggja. Konungur bað hann segja skaplöst hans þann er hann sæi. Dagur fann það til er konungi þótti rétt. Þá spurði konungur um Björn ármann, hvern skaplöst hann hefði.

Dagur segir að Björn var þjófur og það með að hann segir hvar Björn hafði fólgið á bæ sínum bæði bein og horn og húðir af nautum þeim er hann hafði stolið þá um haustið. „Er hann valdi,“ segir hann, „allra þeirra stulda er í haust hafa horfið og hann hefir öðrum mönnum kennt.“

Segir Dagur konungi öll merki til hvar konungur skyldi leita. En er konungur fór í brott frá Rauðs þá var hann leiddur út með stórum vingjöfum. Voru með konungi synir Rauðs. Fór konungur fyrst til Bjarnar og reyndist honum allt svo sem Dagur hafði sagt. Síðan lét konungur Björn fara í brott úr landi og naut hann drottningar að því er hann hélt lífi og limum.