Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/175

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
175. Frá sigling Ólafs konungs


Tómasmessu fyrir jól þegar í dagan tók konungur út úr höfninni. Var þá allgóður byr og heldur hvass. Sigldi hann þá norður fyrir Jaðar. Var veður vott og mjörkvaflaug nokkur. Þegar fór njósn hið efra um Jaðar er konungur sigldi hið ytra.

En er Erlingur varð þess var að konungur sigldi austan þá lét hann blása liði sínu öllu til skipanna. Dreif þá fólk allt á skipin og bjóst til bardaga. En skip konungs bar skjótt að norður um Jaðar. Þá stefndi hann innleið, ætlaði svo ferð sína að fara í fjörðu inn og fá sér þar lið og fé. Erlingur sigldi eftir honum og hafði her manns og fjölda skipa. Voru skip þeirra örskreið er þeir höfðu ekki á nema menn og vopn. Gekk þá skeiðin Erlings miklu meira en önnur skipin. Þá lét hann hefla seglið og beið liðs síns.

Þá sá Ólafur konungur að þeir Erlingur sóttu eftir mjög því að skip konungs voru sett mjög og sollin er þau höfðu flotið á sæ allt sumarið og um haustið og veturinn þar til. Hann sá að liðsmunur mikill mundi vera ef mætti öllu í senn liði Erlings. Þá lét hann kalla skip frá skipi að menn skyldu síga láta seglin og heldur seint en svipta af handrifi og var svo gert.

Þeir Erlingur fundu það. Þá kallaði Erlingur og hét á lið sitt, bað þá sigla meira. „Sjáið þér,“ segir hann, „að nú lægir seglin þeirra og draga þeir undan oss.“

Lét hann þá hleypa úr heflunum segli á skeiðinni. Gekk hún fram brátt.