Heimskringla/Ólafs saga helga/176
Ólafur konungur stefndi fyrir innan Bókn. Fal þá sýn milli þeirra. Síðan bað konungur leggja seglin og róa fram í sund þröngt er þar var. Lögðu þeir þar þá saman skipunum. Gekk kleppurnes fyrir utan þá. Menn voru þá allir herklæddir.
Erlingur sigldi þá að sundinu og fundu þeir eigi fyrr að her lá fyrir þeim en þeir sáu að konungsmenn reru öllum skipunum senn að þeim. Þeir Erlingur hleyptu ofan seglinu og gripu til vopna. En konungsherinn lá öllum megin að skipinu. Tókst þar orusta og var hin snarpasta. Þá sneri mannfallinu brátt í lið Erlings. Erlingur stóð í lyftingu á skipi sínu. Hann hafði hjálm á höfði og skjöld fyrir sér, sverð í hendi.
Sighvatur skáld hafði verið eftir í Víkinni og spurði hann þar þessi tíðindi. En Sighvatur var hinn mesti vinur Erlings og hafði þegið gjafir af honum og verið með honum.
Sighvatur orti flokk um fall Erlings og er þessi vísa þar í:
- Út réð Erlingr skjóta
- eik, sá er rauð hinn bleika,
- iflaust er það, jöfri,
- arnar fót, að móti.
- Skeið hans lá svo síðan
- siklings í her miklum,
- snarir börðust þar sverðum,
- síbyrð við skip, fyrðar.
Þá tók að falla lið Erlings og þegar er á ortist og uppganga varð greidd á skeiðina þá féll hver í sínu rúmi. Konungur sjálfur gekk hart fram.
Svo segir Sighvatur:
- Rakkr þengill hjó rekka.
- Reiðr gekk hann um skeiðar.
- Valr lá þröngr á þiljum.
- Þung var sókn fyr Tungum.
- Bragningr rauð fyr breiðan
- borðvöll Jaðar norðan.
- Blóð kom varmt í víðan,
- vó frægr konungr, ægi.
Svo féll vandlega lið Erlings að engi maður stóð upp á skeiðinni nema hann einn. Var þar bæði að menn beiddu lítt griða, fékk og engi þótt beiddi, mátti og ekki á flótta snúast því að skip lágu umhverfis skeiðina. Er svo sagt sannlega að engi maður leitaði að flýja.
Enn segir Sighvatur:
- Öll var Erlings fallin,
- ungr fyr norðan Tungur
- skeið vann skjöldungr auða,
- skipsókn við þröm Bóknar.
- Einn stóð sonr á sínu
- snarr Skjálgs, vinum fjarri,
- í lyftingu lengi
- lætrauðr skipi auðu.
Þá var Erlingi veitt atsókn bæði úr fyrirrúminu og af öðrum skipum. Rúm mikið var í lyftingunni og bar það hátt mjög upp frá öðrum skipum og mátti engu við koma nema skotum og nokkuð spjótalögum og hjó hann það allt af sér. Erlingur varðist svo prúðlega að engi maður vissi dæmi að einn maður hefði staðið svo lengi fyrir jafnmargra manna atsókn en aldrei leitaði hann undankomu eða griða að biðja.
Svo segir Sighvatur:
- Réð eigi grið, gýgjar,
- geðstirðr konungs firða,
- skers þó að skúrir þyrrit,
- Skjálgs hefnir sér nefna.
- En varðkeri virðir
- víðbotn né kemr síðan
- glyggs á gjálfri leygðan
- geirs ofrhugi meiri.
Ólafur konungur sótti þá aftur í fyrirrúmið og sá hvað Erlingur hafðist að. Konungur orti þá orða á hann og mælti svo: „Öndurður horfir þú við í dag Erlingur.“
Hann svarar: „Öndurðir skulu ernir klóast.“
Þessa orða getur Sighvatur:
- Öndurða bað, jarðar,
- Erlingr, sá er vel lengi
- geymdi hann lystr, né lamdist
- landvörn, klóast örnu,
- þá er hann að sig sönnum,
- sá var áðr búinn ráða
- ats, við Útstein hisi
- Ólaf um tók málum.
Þá mælti konungur: „Viltu á hönd ganga Erlingur?“
„Það vil eg,“ segir hann.
Þá tók hann hjálminn af höfði sér og lagði niður sverðið og skjöldinn og gekk fram í fyrirrúmið.
Konungur stakk við honum öxarhyrnunni í kinn honum og mælti: „Merkja skal drottinsvikann.“
Þá hljóp að Áslákur Fitjaskalli og hjó með öxi í höfuð Erlingi svo að stóð í heila niðri. Var það þegar banasár. Lét Erlingur þar líf sitt.
Þá mælti Ólafur konungur við Áslák: „Högg þú allra manna armastur. Nú hjóstu Noreg úr hendi mér.“
Áslákur segir: „Illa er þá konungur ef þér er mein að þessu höggi. Eg þóttist nú Noreg í hönd þér höggva. En ef eg hefi þér mein gert konungur og kanntu mér óþökk fyrir þetta verk þá mun mér kostlaust vera, því að hafa mun eg svo margra manna óþökk og fjandskap fyrir þetta verk að eg mundi heldur þurfa að hafa yðart traust og vináttu.“
Konungur segir að svo skyldi vera. Síðan bað konungur hvern mann ganga á sitt skip og búast ferðar sinnar sem hvatlegast. „Munum vér,“ segir hann, „ekki ræna val þenna. Munu nú hafa hvorir sem fengið hafa.“
Gengu menn þá aftur á skipin og bjuggust sem hvatlegast. En er þeir voru búnir þá renndu skipin í sundið sunnan, búandaliðið. Var þá sem oft eru raunir þótt lið mikið komi saman er menn fá slög stór og láta höfðingja sína, að menn verða eigi góðir tilræðis, og séu þá höfðingjalausir.
Synir Erlings voru engir þar. Varð ekki af atlögu búanda og sigldi konungur norður leið sína en bændur tóku lík Erlings og bjuggu um og fluttu heim á Sóla, svo val þann allan er þar hafði fallið. Og var Erlingur hið mesta harmaður og hefir það verið mál manna að Erlingur Skjálgsson hafi verið maður göfgastur og ríkastur í Noregi, þeirra er eigi bæri tignarnafn meira.
Sighvatur skáld orti enn þetta:
- Erlingr féll en olli
- allríkr skapað slíku,
- bíðrat betri dauða,
- bragna konr, með gagni.
- Mann veit eg engi annan,
- allbrátt þó að fjör láti,
- enn sá er allan kunni
- aldr fullara að halda.
Þá segir og að Áslákur hefði frændvíg upp hafið og mjög ósynju:
- Áslákr hefir aukið,
- er vörðr drepinn Hörða,
- fáir skyldu svo, foldar,
- frændsekju, styr vekja.
- Ættvígi má hann eigi,
- á líti þeir, níta,
- frændr skulu bræði bindast
- bornir, mál hin fornu.