Heimskringla/Ólafs saga helga/179

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


En er dagur kom þá fóru bændur ofan með eyki sína svo sem konungur hafði mælt við þá. Flytja þeir þá með eykjunum varnað sinn og klæði en allt lið gekk og konungur sjálfur.

En hann gekk þar til er Krossbrekka heitir og hvíldist er hann kom á brekkuna og sat þar um hríð og sá ofan í fjörðinn og mælti: „Erfiða ferð hafa þeir fengið mér í hendur, lendir menn mínir, er nú hafa skipt um trúnaðinn, er um hríð voru vinir mínir og fulltrúar.“

Þar standa nú krossar tveir eftir á brekkunni er konungur sat.

Konungur steig þá á bak hesti einum og reið upp eftir dalnum og létti eigi fyrr en þeir komu til urðarinnar. Þá spurði konungur Brúsa eftir ef nokkur sel væru þar, þau er þeir mættu í búa. Hann kvað vera. En konungur setti landtjald sitt og var þar um nóttina.

En um morguninn þá bað konungur þá fara til urðarinnar og freista ef þeir mættu koma veginum yfir urðina. Þá fóru þeir til en konungur sat heima í landtjaldi.

En að kveldi komu þeir heim, hirðmenn konungs og bændur, og kváðust hafa haft mikið erfiði og ekki á leið komið og segja að þar mundi aldrei vegur yfir komast eða leggjast, og voru þar aðra nótt og var konungur á bænum sínum alla nótt.

Og þegar er konungur fann að dagaði þá bað hann menn fara til urðar og freista enn ef þeir gætu veginum yfir komið. Þeir fóru og voru trauðir, þeir sögðu að þeir mundu ekki geta að unnið.

En þá er þeir voru brott farnir þá kom sá maður til konungs er réð fyrir vistum og segir að eigi var vist meiri en tvö nautföll sláturs „en þú hefir fjögur hundruð þíns liðs og hundrað búanda.“

Þá mælti konungur að hann skyldi láta upp katla alla og í hvern ketil láta nokkuð af slátri og svo var gert. En konungur gekk til og gerði yfir krossmark og bað þá búa mat. En konungur fór til Skerfsurðar þar sem þeir skyldu veginn ryðja.

En þá er konungur kom þar þá sátu þeir allir og voru móðir orðnir af erfiði.

Þá mælti Brúsi: „Eg sagði yður konungur og vilduð þér eigi trúa mér að ekki mátti vinna að urð þessari.“

Síðan lagði konungur niður skikkju sína og mælti að þeir skyldu til fara allir og freista enn og svo var gert. Og færðu þá steina tuttugu menn þannug sem þeir vildu er engan veg gátu áður hrært hundrað manna og var vegurinn ruddur að miðjum degi svo að fært var bæði mönnum og hrossum með klyfjum eigi verr en á sléttum velli.

Síðan fór konungur ofan aftur þangað sem vist þeirra var og nú heitir Ólafshellir. Kelda er og þar nær hellinum og þó konungur sér í. En ef búfé manna verður sjúkt í dalnum og drekkur þar af vatni því þá batnar því sótta.

Síðan fór konungur til matar og allir þeir. Og þá er konungur var mettur þá spurði hann eftir ef sætur nokkur væru í dalnum upp frá urðinni og nær fjallinu er þeir mættu búa í um nóttina.

En Brúsi segir: „Eru sætur er heita Græningar og má þar engi maður vera um nætur fyrir tröllagangs sakar og meinvétta er þar eru hjá sætrinu.“

Síðan mælti konungur að þeir skyldu búa ferð sína og segir að hann vildi þar vera um nóttina á sætrinu.

Þá kom sá maður til hans er fyrir vistum réð og segir að þar er örgrynni vista „og veit eg eigi hvaðan komnar eru.“

Þakkar konungur guði sending sína og lét hann gera byrðar matar bændum þeim er ofan fóru eftir dalnum. En konungur var á sætri um nóttina.

En að miðri nótt er menn voru í svefni þá lét á stöðli úti afskræmilega og mælti: „Svo brenna mig nú bænir Ólafs konungs,“ segir sú véttur, „að eigi má eg nú vera að híbýlum mínum og verð eg nú flýja og koma aldrei á þenna stöðul síðan.“

En um morguninn er menn vöknuðu þá fór konungur til fjalls og mælti við Brúsa: „Hér skal nú gera bæ og mun sá bóndi æ hafa sér framdrátt er hér býr og aldrei skal hér korn frjósa þó að bæði frjósi fyrir ofan bæ og neðan.“

Þá fór Ólafur konungur yfir fjall og kom fram í Einbúa og var þar um nótt.

Ólafur konungur hafði þá verið konungur í Noregi fimmtán vetur með þeim vetri er þeir Sveinn jarl voru báðir í landi og þessum er nú um hríð hefir verið frá sagt og þá var liðið um jól fram er hann lét skip sín og gekk á land upp sem nú var sagt.

Þessa grein konungdóms hans ritaði fyrst Ari prestur Þorgilsson hinn fróði er bæði var sannsögull, minnigur og svo gamall maður að hann mundi þá menn og hafði sögur af haft, er þeir voru svo gamlir, að fyrir aldurs sakir máttu muna þessi tíðindi svo sem hann hefir sjálfur sagt í sínum bókum og nefnda þá menn til er hann hafði fræði af numið.

En hitt er alþýðu sögn að Ólafur væri fimmtán vetur konungur yfir Noregi áður hann féll en þeir er svo segja, þá telja þeir Sveini jarli til ríkis þann vetur er hann var síðast í landi því að Ólafur var síðan fimmtán vetur konungur svo að hann lifði.