Heimskringla/Ólafs saga helga/178

Úr Wikiheimild

Síðan hélt Ólafur konungur inn til Steinavogs og lá þar um nótt. En Áslákur Fitjaskalli hélt skipi sínu inn til Borgundar. Dvaldist hann þar um nóttina. Þar var fyrir Vígleikur Árnason.

En um morguninn er Áslákur vildi ganga til skips síns þá veitti Vígleikur honum atgöngu og vildi hefna Erlings. Þar féll Áslákur. Þá komu menn til konungs, hirðmenn hans, norðan úr Frekeyjarsundi, þeir er heima höfðu setið um sumarið, og sögðu konungi þau tíðindi að Hákon jarl og margir lendir menn með honum voru komnir um kveldið í Frekeyjarsund með miklu fjölmenni „og vilja þig taka af lífi konungur og þitt lið ef þeir eiga vald á.“

En konungur gerði menn sína upp á fjall það er þar er. En þá er þeir koma upp á fjallið þá sáu þeir norður til Bjarneyjar að norðan fór lið mikið og mörg skip og fóru ofan aftur og segja konungi að herinn fór norðan. En konungur lá þar fyrir tólf skipum. Síðan lét hann blása og fóru tjöld af skipum hans og tóku þeir til ára.

En þá er þeir voru albúnir og þeir lögðu úr höfninni þá fór her bónda norðan fyrir Þrjótshverfi og höfðu hálfan þriðja tug skipa. Þá stefndi konungur fyrir innan Nyrfi og inn um Hundsver. En þá er Ólafur konungur kom jafnfram Borgund þá fór út skip móti honum er Áslákur hafði átt.

En er þeir hittu Ólaf konung þá sögðu þeir sín tíðindi að Vígleikur Árnason hafði tekið af lífi Áslák Fitjaskalla fyrir það er hann hafði drepið Erling Skjálgsson. Konungur lét illa yfir þessum tíðindum og mátti þó eigi dvelja ferð sína fyrir ófriði og fór þá inn um Vegsund og um Skot. Þá skildist lið við hann. Fór frá honum Kálfur Árnason og margir aðrir lendir menn og skipstjórnarmenn og héldu þeir til móts við jarl.

En Ólafur konungur hélt fram sinni ferð og létti eigi fyrr en hann kom í Toðarfjörð inn og lagði að í Valldali og gekk þar af skipum sínum og hafði þar fimm skip og setti þau upp og fékk þar til hirslu segl og reiða. Síðan setti hann þar landtjald sitt á eyrinni sem Sult heitir og eru þar fagrir vellir og reisti kross þar hjá á eyrinni.

En bóndi sá bjó á Mærini er Brúsi hét og var hann höfðingi yfir dalnum. Síðan kom Brúsi ofan og margir aðrir bændur á fund Ólafs konungs og fögnuðu honum vel sem verðugt var en hann gerði sig blíðan í móti fagnaði þeirra. Þá spurði konungur ef fært væri þar á land upp úr dalinum og á Lesjar.

Brúsi segir honum að urð sú var í dalnum er Skerfsurð heitir „og er þar hvorki fært mönnum né hrossum.“

Ólafur konungur svarar honum: „Til mun nú hætta verða búandi. Tekst sem guð vill. Og komið hér nú í morgun með eyki yðra og sjálfa yður og sjáum síðan hver vöxtur á sé þá er vér komum til urðarinnar, hvort vér megum þar nokkur brögð sjá að komast yfir með hrossum eða mönnum.“