Heimskringla/Ólafs saga helga/181

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Það er að segja frá ferð Ólafs konungs að hann fór fyrst úr Noregi austur um Eiðaskóg til Vermalands og þá út í Vatnsbú og þaðan yfir skóg þann sem leið liggur og kom fram á Næríki. Þar var fyrir ríkur maður og auðigur er hét Sigtryggur. Ívar hét sonur hans er síðan varð göfugur maður. Þar dvaldist Ólafur konungur um vorið með Sigtryggi.

En er sumraði þá bjó konungur ferð sína og fékk sér skip. Fór hann um sumarið og létti eigi fyrr en hann kom austur í Garðaríki á fund Jarisleifs konungs og þeirra Ingigerðar drottningar. Ástríður drottning og Úlfhildur konungsdóttir voru eftir í Svíþjóð en konungur hafði austur með sér Magnús son sinn.

Jarisleifur konungur fagnaði vel Ólafi konungi og bauð honum með sér að vera og hafa þar land til slíks kostnaðar sem hann þurfti að halda lið sitt með. Það þekktist Ólafur konungur og dvaldist þar.

Svo er sagt að Ólafur konungur var siðlátur og bænrækinn til guðs alla stund ævi sinnar. En síðan er hann fann að ríki hans þvarr en mótstöðumenn efldust þá lagði hann allan hug á það að gera guðs þjónustu. Dvaldi hann þá ekki frá aðrar áhyggjur eða það starf sem hann hafði áður með höndum haft því að hann hafði þá stund er hann sat í konungdóminum starf að það er honum þótti mest nytsemd að vera, fyrst að friða og frelsa landið af áþján útlendra höfðingja en síðan að snúa landsfólkinu á rétta trú og þar með að setja lög og landsrétt og þann hlut gerði hann fyrir réttdæmis sakir að hegna þá er rangt vildu.

Það hafði mikill siður verið í Noregi að lendra manna synir eða ríkra búanda fóru á herskip og öfluðu sér svo fjár að þeir herjuðu bæði utanlands og innanlands. En síðan er Ólafur tók konungdóm þá friðaði hann svo land sitt að hann tók af rán öll þar í landi. Og mætti refsingu við þá koma þá lét hann engu öðru við koma en þeir létu líf eða limar. Hvorki týði bæn manna þar fyrir né féboð.

Svo segir Sighvatur skáld:

Gull buðu oft, þeir er ollu
úthlaupum, gram kaupast
rautt, en ræsir neitti,
ríklunduðum undan.
Skör bað hann með hjörvi,
herland skal svo verja,
ráns biðu rekkar sýna
refsing, firum efsa.
Fæddi mest, sá er meiddi,
margdýr konungr varga,
hvinna ætt og hlenna.
Hann stýfði svo þýfðir.
Þýðr lét þermlast bæði
þjóf hvern konungr ernan,
friðr bættist svo, fóta,
fylkis lands, og handa.
Vissi helst, það er hvössum
hundmörgum lét grundar
vörðr með vopnum skorða
víkingum skör, ríkis.
Mildr lét mörgu valdið
Magnúss faðir gagni.
Fremd Ólafs kveð eg frömdu
flestan sigr hins digra.

Hann lét jafna refsing hafa ríkan og óríkan en það þótti landsmönnum ofrausn og fylltust þar fjandskapar upp í mót er þeir létu frændur sína að réttum konungsdómi þótt sannar sakir væru. Var það upphaf til þeirrar uppreistar er landsmenn gerðu í móti Ólafi konungi að þeir þoldu honum eigi réttindi en hann vildi heldur láta af tigninni en af réttdæminu. En eigi var sú sök við hann rétt fundin að hann væri hnöggur fjár við sína menn. Hann var hinn mildasti við vini sína. En það bar til er menn reistu ófrið í móti honum að mönnum þótti hann harður og refsingasamur en Knútur konungur bauð fram ofurfé, en þó urðu stórhöfðingjarnir að hinu blekktir er hann hét hverjum þeirra tign og ríki, og það með að menn voru fúsir í Noregi að taka við Hákoni jarli því að hann var hinn vinsælsti maður af landsfólki þá fyrr er hann réð fyrir landi.