Heimskringla/Ólafs saga helga/182

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Hákon jarl hafði haldið liði sínu úr Þrándheimi og farið í mót Ólafi konungi suður á Mæri sem fyrr var ritið.

En er konungur hélt inn í fjörðu þá sótti jarl eftir þannug. Kom þá til móts við hann Kálfur Árnason og fleiri þeir menn er skilist höfðu við Ólaf konung. Var Kálfi þar vel fagnað. Síðan hélt jarl inn þannug sem konungur hafði upp sett skip sín í Toðarfjörð í Valldal. Tók jarl þar skip þau er konungur átti. Lét jarl setja út skipin og búa. Voru þá menn hlutaðir til skipstjórnar.

Sá maður var með jarlinum er nefndur er Jökull, íslenskur maður, sonur Bárðar Jökulssonar úr Vatnsdali. Jökull hlaut að stýra Vísundinum er Ólafur konungur hafði haft. Jökull orti vísu þessa:

Hlaut eg frá Sult, en sæta
síð fregn að eg kvíði,
von erumk hreggs að hreini
hlýrvangs, skipi stýra,
því er, ýstéttar, átti
Óleifr, funa kleifar,
gramr var sjálfr á sumri
sigri ræntr, hinn digri.

Það er hér skjótast af að segja, er síðar varð mjög miklu, að Jökull varð fyrir liði Ólafs konungs á Gotlandi og varð handtekinn og lét konungur hann til höggs leiða og var vöndur snúinn í hár honum og hélt á maður. Settist Jökull niður á bakka nokkurn. Þá réð maður til að höggva hann. En er heyrði hvininn réttist hann upp og kom höggið í höfuð honum og varð mikið sár. Sá konungur að það var banasár. Bað konungur þá hætta við hann.

Jökull sat upp og orti þá vísu:

Svíða sár af mæði.
Setið hefi eg oft við betra.
Und er á oss sú er sprændi
ótrauð legi rauðum.
Byss mér blóð úr þessi
ben. Té eg við þrek venjast.
Verpr hjálmgöfugr hilmir
heiðsær á mig reiði.

Síðan dó Jökull.