Heimskringla/Ólafs saga helga/189

Úr Wikiheimild

Svo er sagt að sá atburður varð í Garðaríki þá er Ólafur konungur var þar að sonur einnar göfugrar ekkju fékk kverkasull og sótti svo mjög að sveinninn mátti engum mat niður koma og þótti hann banvænn. Móðir sveinsins gekk til Ingigerðar drottningar því að hún var kunnkona hennar og sýndi henni sveininn.

Drottning segir að hún kunni engar lækningar til að leggja. „Gakk þú,“ segir hún, „til Ólafs konungs, hann er hér læknir bestur, og bið hann fara höndum um mein sveinsins og ber til orð mín ef hann vill eigi ellegar.“

Hún gerði svo sem drottning mælti. En er hún fann konung þá segir hún að sonur hennar var banvænn af kverkasulli og bað hann fara höndum um sullinn.

Konungur segir henni að hann var engi læknir, bað hana þangað fara sem læknar voru.

Hún segir að drottning hafði henni þangað vísað „og hún bað mig sín orð til bera að þér legðuð lækning til sem þér kynnuð og sagði hún mér að þú værir bestur læknir hér í staðinum.“

Þá tók konungur til og fór höndum um kverkur sveininum og þuklaði sullinum mjög lengi til þess er sveinninn hrærði munninn. Þá tók konungur brauð og braut og lagði í kross í lófa sér. Síðan lagði hann það í munn sveininum en hann svalg niður.

En þaðan af tók verk allan úr kverkunum. Var hann á fám dægrum alheill. Móðir hans varð fegin mjög og aðrir frændur og kunnmenn sveinsins. Var þá fyrst á þannug virt sem Ólafur konungur hefði svo miklar læknishendur sem mælt er um þá menn sem mjög er sú íþrótt lögð, að þeir hafi hendur góðar, en síðan er jartegnagerð hans varð alkunnig þá var það tekið fyrir sanna jartegn.