Heimskringla/Ólafs saga helga/188

Úr Wikiheimild

Það var á einni nóttu að Ólafur lá í rekkju sinni og vakti lengi um nóttina og hugði að ráðagerðum sínum og hafði stórar áhyggjur í skapi sínu. En er hugurinn mæddist mjög þá sé á hann svefn og svo laus að hann þóttist vaka og sjá öll tíðindi í húsinu. Hann sá mann standa fyrir rekkjunni mikinn og veglegan og hafði klæðnað dýrlegan. Bauð konungi það helst í hug að þar mundi vera kominn Ólafur Tryggvason.

Sá maður mælti til hans: „Ertu mjög hugsjúkur um ráðaætlan þína, hvert ráð þú skalt upp taka? Það þykir mér undarlegt er þú velkir það fyrir þér, svo það ef þú ætlast það fyrir að leggja niður konungstign þá er guð hefir gefið þér, slíkt hið sama sú ætlan að vera hér og þiggja ríki af útlendum konungum og þér ókunnum. Farðu heldur aftur til ríkis þíns er þú hefir að erfðum tekið og ráðið lengi fyrir með þeim styrk er guð gaf þér og lát eigi undirmenn þína hræða þig. Það er konungs frami að sigrast á óvinum sínum en veglegur dauði að falla í orustu með liði sínu. Eða efar þú nokkuð um það að þú hafir rétt að mæla í yðarri deilu? Eigi skaltu það gera að dylja sjálfan þig sanninda. Fyrir því máttu djarflega sækja til landsins að guð mun þér bera vitni að það er þín eiga.“

En er konungur vaknaði þá þóttist hann sjá svip mannsins er brott gekk. En þaðan í frá herti hann huginn og einstrengdi þá ætlan fyrir sér að fara aftur til Noregs svo sem hann hafði áður verið fúsastur til og hann fann að allir hans menn vildu helst vera láta. Taldi hann það þá í huginn að landið mundi vera auðsótt er höfðingjalaust var, svo sem þá hafði hann spurt. Ætlaði hann, ef hann kæmi sjálfur til, að margir mundu þá enn honum liðsinnaðir. En er konungur birti þessa ráðagerð fyrir mönnum sínum þá tóku allir því þakksamlega.