Heimskringla/Ólafs saga helga/187

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Síðan er Ólafur konungur var kominn í Garðaríki hafði hann stórar áhyggjur og hugsaði hvert ráð hann skyldi upp taka.

Jarisleifur konungur og Ingigerður drottning buðu Ólafi konungi að dveljast með sér og taka upp ríki það er heitir Vúlgaría og er það einn hlutur af Garðaríki og var það fólk heiðið í því landi. Ólafur konungur hugsaði fyrir sér um þetta boð en er hann bar það fyrir menn sína þá löttu allir að staðfestast þar og eggjuðu konung að ráða norður til Noregs til ríkis síns.

Konungur hafði það enn í ráðagerð sinni að leggja niður konungstign og fara út í heim til Jórsala eða í aðra helga staði og ganga undir regúlu. Það taldist lengstum í huginn að hugsa ef nokkur föng mundu til verða að hann næði ríki sínu í Noregi. En er hann hafði þar á huginn þá minntist hann þess að hina fyrstu tíu vetur konungdóms hans voru honum allir hlutir hagfelldir og farsællegir en síðan voru honum öll ráð sín þunghrærð og torsótt en gagnstaðlegar allar hamingjuraunirnar. Nú efaði hann um, fyrir þá sök, hvort það mundi vera viturlegt ráð að treysta svo mjög hamingjuna að fara með lítinn styrk í hendur fjandmönnum sínum er allur landsmúgur hafði til slegist að veita Ólafi konungi mótgöngu. Slíkar áhyggjur bar hann oftlega og skaut til guðs sínu máli og bað hann láta það upp koma er hann sæi að best gegndi. Volkaði hann það í hugnum og vissi eigi hvað hann skyldi upp taka því að honum sýndust mein auðsýn á því sem hann taldi fyrir sér.