Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/186

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
186. Ferð Bjarnar stallara


Björn stallari spurði tíðindi þau er sagt var að Hákon jarl væri týndur. Þá sneri skaplyndi hans, iðraðist hann þess er hann hafði brugðið trú sinni við Ólaf konung. Þóttist hann þá laus vera þeirra einkamála er hann hafði veitt til hlýðni Hákoni jarli. Þótti Birni þá gerast nokkur von til uppreistar um ríki Ólafs konungs ef hann kæmi til Noregs, að þá væri þar höfðingjalaust fyrir.

Björn býr þá ferð sína skyndilega og hafði nokkura menn með sér, fór síðan dag og nótt ferðar sinnar, það á hestum er svo mátti, það á skipum er það bar til, létti eigi ferð þeirri fyrr en hann kom um veturinn að jólum austur í Garðaríki og á fund Ólafs konungs og varð konungur allfeginn er Björn hitti hann. Spurði þá konungur margra tíðinda norðan úr Noregi.

Björn segir að jarl var týndur og land var þá höfðingjalaust. Þeim tíðindum urðu menn fegnir, þeir er Ólafi konungi höfðu fylgt úr Noregi og þar höfðu átt eigur og frændur og vini og léku miklir landmunir til heimferðar. Mörg önnur tíðindi sagði Björn konungi úr Noregi, þau er honum var forvitni á að vita. Þá spurði konungur eftir vinum sínum, hvernug þeir héldu trúnaði við hann. Björn segir að það var allmisjafnt.

Síðan stóð Björn upp og féll til fóta konungi og tók um fót honum og mælti: „Allt á guðs valdi og yðru konungur. Eg hefi tekið fé af Knúts mönnum og svarið þeim trúnaðareiða en nú vil eg þér fylgja og eigi við þig skiljast meðan við lifum báðir.“

Konungur svarar: „Stattu upp skjótt Björn. Sáttur skaltu vera við mig. Bættu þetta við guð. Vita má eg það að fáir munu nú vera í Noregi, þeir er einurð sinni haldi nú við mig, er slíkir bregðast sem þú ert. Er það og satt að menn sitja þar í miklu vandkvæði er eg em fjarri en sitja fyrir ófriði fjandmanna minna.“

Björn segir konungi frá því hverjir mest bundust fyrir að reisa fjandskap upp í móti konungi og hans mönnum. Nefndi hann til þess sonu Erlings á Jaðri og aðra frændur þeirra, Einar þambarskelfi, Kálf Árnason, Þóri hund, Hárek úr Þjóttu.