Heimskringla/Ólafs saga helga/193

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Nú skal segja hvað þeir höfðust að í Noregi um þessar hríðir.

Þórir hundur hafði Finnferð haft þessa tvo vetur og hafði hann verið hvorntveggja vetur lengi á fjalli og fengið óf fjár. Hann átti margs konar kaup við Finna. Hann lét þar gera sér tólf hreinbjálfa með svo mikilli fjölkynngi að ekki vopn festi á og síður miklu en á hringabrynju. En hið síðara vor bjó Þórir langskip er hann átti og skipaði húskörlum sínum. Hann stefndi saman bóndum og krafði leiðangurs allt um hina nyrstu þinghá, dró þar saman mikið fjölmenni, fór norðan um vorið með liði því.

Hárekur úr Þjóttu hafði og liðsafnað og fékk mikið lið. Urðu til þeirrar farar miklu fleiri virðingamenn þó að þessir séu ágætastir. Lýstu þeir yfir því að liðsafnaður sá skyldi fara móti Ólafi konungi og verja honum land ef hann kæmi austan.