Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/194

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
194. Frá Einari þambarskelfi


Einar þambarskelfir hafði mest forráð út um Þrándheim síðan er fráfall Hákonar jarls spurðist. Þótti honum þeir Eindriði feðgar vera best komnir til eigna þeirra er jarl hafði átt og lausafjár. Minntist Einar þá heita þeirra og vinmæla er Knútur konungur hafði veitt honum að skilnaði. Lét þá Einar búa skip gott er hann átti, gekk þar á sjálfur með mikið föruneyti.

En er hann var búinn hélt hann suður með landi og síðan vestur um haf og létti eigi ferð sinni fyrr en hann kom til Englands, fór þá þegar á fund Knúts konungs. Fagnaði konungur honum vel. Síðan bar Einar upp erindi sín fyrir konung, segir svo að hann var þá kominn að vitja heita þeirra er konungur hafði mælt að Einar skyldi bera tignarnafn yfir Noregi ef Hákonar jarls væri eigi við kostur.

Knútur konungur segir að það mál vissi allt annan veg við. „Hefi eg nú,“ segir hann, „sent menn og jartegnir mínar til Danmerkur til Sveins sonar míns og það með að eg hefi honum heitið ríki í Noregi. En eg vil halda við þig vináttu. Skaltu hafa þvílíkar nafnbætur af mér sem þú hefir burði til og vera lendur maður en hafa veislur miklar og vera því framar en aðrir lendir menn sem þú ert meiri framkvæmdarmaður en aðrir lendir menn.“

Sá Einar þá um hlut sinn hvert hans erindi mundi verða. Býst hann þá til heimferðar. En er hann vissi fyrirætlan konungsins, og svo það að mikil von var ef Ólafur konungur kæmi austan að ekki mundi friðsamlegt í landi, kom Einari það í hug að ekki mundi undir að hrapa ferðinni meir en svo sem hóflegast væri ef þeir skyldu berjast við Ólaf konung en hafa ekki til framflutningar ríkis síns þá heldur en áður.

Sigldi Einar þá í haf er hann var að því búinn og kom svo til Noregs að áður voru fram komin þau tíðindi er þar gerðust mest á því sumri.