Heimskringla/Ólafs saga helga/208

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá nótt er Ólafur konungur lá í safnaðinum og áður er frá sagt vakti hann löngum og bað til guðs fyrir sér og liði sínu og sofnaði lítt. Rann á hann höfgi móti deginum.

En er hann vaknaði þá rann dagur upp. Konungi þótti heldur snemmt að vekja herinn. Þá spurði hann hvar Þormóður skáld væri. Hann var þar nær og svarar, spurði hvað konungur vildi honum.

Konungur segir: „Tel þú oss kvæði nokkuð.“

Þormóður settist upp og kvað hátt mjög svo að heyrði um allan herinn. Hann kvað Bjarkamál hin fornu og er þetta upphaf:

Dagr er upp kominn,
dynja hanafjaðrar,
mál er vílmögum
að vinna erfiði.
Vaki æ og vaki
vina höfuð,
allir hinir æðstu
Aðils um sinnar.
Hár hinn harðgreipi,
Hrólfr skjótandi,
ættum góðir menn,
þeir er ekki flýja.
Vekka eg yðr að víni
né að vífs rúnum,
heldr vek eg yðr að hörðum
Hildar leiki.

Þá vaknaði liðið. En er lokið var kvæðinu þá þökkuðu menn honum kvæðið og fannst mönnum mikið um og þótti vel til fundið og kölluðu kvæðið Húskarlahvöt. Konungur þakkaði honum skemmtan sína. Síðan tók konungur gullhring er stóð hálfa mörk og gaf Þormóði.

Þormóður þakkaði konungi gjöf sína og mælti: „Góðan eigum vér konung en vant er nú að sjá hversu langlífur konungur verður. Sú er bæn mín konungur að þú látir okkur hvorki skiljast lífs né dauða.“

Konungur svarar: „Allir munum vér saman fara meðan eg ræð fyrir ef þér viljið eigi við mig skiljast.“

Þá mælti Þormóður. „Þess vænti eg konungur, hvort sem friður er betri eða verri, að eg sé nær yður staddur meðan eg á þess kost hvað sem vér spyrjum til hvar Sighvatur fer með gullinhjaltann.“

Síðan kvað Þormóður:

Þér mun eg enn, uns öðrum,
allvaldr, náið skaldum,
nær væntir þú þeira?
þingdjarfr, um kné hvarfa.
Braut komumst vér, þó að veitum
valtafn frekum hrafni,
víkst eigi það, voga
viggrunnr, eða hér liggjum.