Heimskringla/Ólafs saga helga/209

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur flutti herinn út eftir dalnum. Fór þá enn Dagur með sínu liði aðra leið. Konungur létti eigi ferð sinni áður hann kom út á Stiklastaði. Þá sáu þeir her bónda og fór það lið dreift mjög og var svo mikill fjöldi að af hverjum stíg dreif liðið en víða þar er stórflokkar fóru saman. Þeir sáu hvar sveit manna fór ofan úr Veradal og höfðu þeir á njósn verið og fóru nær því sem lið konungs var og fundu eigi fyrr en skammt var í milli þeirra svo að menn máttu kennast.

Þar var Hrútur af Viggju með þrjá tigu manna. Síðan mælti konungur að gestir skyldu fara að móti Hrúti og taka hann af lífi. Voru menn þess verks fljótir.

Þá mælti konungur til þeirra Íslendinga: „Svo er mér sagt að það sé siður á Íslandi að bændur séu skyldir á haustum að gefa húskörlum sínum slagasauð. Nú vil eg þar gefa yður hrút til sláturs.“

Þeir hinir íslensku voru þess verks auðeggjaðir og fóru þegar að Hrúti með öðrum mönnum. Var Hrútur drepinn og öll sveit sú er honum fylgdi.

Konungur nam staðar og stöðvaði her sinn er hann kom á Stiklastaði. Bað konungur menn stíga af hestum og búast þar um. Menn gerðu sem konungur mælti. Síðan var skotið á fylking og sett upp merkin. Dagur var þá enn eigi kominn með sitt lið og missti þess fylkingararmsins.

Þá mælti konungur að þeir Upplendingar skyldu þar fram ganga og taka upp merkin. „Þykir mér það ráð,“ segir konungur, „að Haraldur bróðir minn sé eigi í orustu því að hann er barn að aldri.“

Haraldur svarar: „Eg skal vera að vísu í orustu en ef eg em svo ósterkur að eg má eigi valda sverðinu þá kann eg þar gott ráð til, að binda skal höndina við meðalkaflann. Engi skal vera viljaður betur en eg að vera óþarfur þeim bóndunum. Vil eg fylgja sveitungum mínum.“

Svo segja menn að Haraldur kvað þá vísu þessa:

Þora mun eg þann arm verja,
það er ekkju munr nekkvað,
rjóðum vér af reiði
rönd, er eg í hlýt standa.
Gengra greppr hinn ungi
gunnblíðr, þar er slög ríða,
herða menn að morði
mót, á hæl fyr spjótum.

Haraldur réð því að hann var í orustu.