Heimskringla/Ólafs saga helga/218

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Sigurður biskup talaði á einu húsþingi þar sem þá var mikið fjölmenni.

Hann tók svo til orða: „Hér er nú saman komið mikið fjölmenni svo að í þessu fátæka landi mun eigi kostur að sjá meira her innlenskan. Skyldi yður nú vel í hald koma þessi styrkur fjölmennis því að nú er ærin nauðsyn til ef Ólafur þessi ætlar enn eigi af að láta að herja á yður. Vandist hann því þegar á unga aldri að ræna og drepa menn og fór til þess víða um lönd. En að lyktum sneri hann hingað til lands og hóf svo upp að hann óvingaðist mest þeim er bestir menn voru og ríkastir: Knúti konungi, og allir eru skyldastir að þjóna sem kunna, og settist hann í skattland hans, slíkt sama veitti hann Ólafi Svíakonungi, en jarlana Svein og Hákon rak hann á brott af ættleifðum sínum. En sjálfs síns frændum var hann þó grimmastur er hann rak konunga alla á brott af Upplöndum og var það þó vel sums kostar því að þeir höfðu áður brugðið trú sinni og svardögum við Knút konung en fylgt þessum Ólafi að hverju óráði er hann tók upp. Nú sleit þeirra vináttu maklega. Hann veitti þeim meiðslur en tók undir sig ríki þeirra, eyddi svo í landinu öllum tignum mönnum. En síðan munuð þér vita hvernug hann hefir búið við lenda menn: drepnir eru hinir ágæstu en margir orðnir landflótta fyrir honum. Hann hefir og víða farið um land þetta með ránsflokkum, brennt héruðin en drepið og rænt fólkið. Eða hver er sá hér ríkismanna er eigi muni honum eiga að hefna stórsaka? Nú fer hann með útlendan her og er það flest markamenn og stigamenn eða aðrir ránsmenn. Ætlið þér hann nú munu yður linan er hann fer með þetta illþýði er hann gerði þá slík hervirki er allir löttu hann, þeir er honum fylgdu? Kalla eg hitt ráð að þér minnist nú orða Knúts konungs, hvað hann réð yður ef Ólafur leitaði enn aftur til lands, hvernug þér skylduð halda frelsi yðru því er Knútur konungur hét yður. Hann bað yður standa í mót og rekast af höndum óaldarflokka slíka. Er nú sá til að fara móti þeim og drepa niður illþýði þetta fyrir örn og úlf og láta þar liggja hvern sem höggvinn er nema þér viljið heldur draga hræ þeirra í holt og hreysi. Verði engi svo djarfur að þá flytji til kirkna því að það eru allt víkingar og illgerðamenn.“

En er hann hætti tölu þessi þá gerðu menn að róm mikinn og guldu allir jákvæði til að gera sem hann mælti.