Heimskringla/Ólafs saga helga/221

Úr Wikiheimild

Kálfur setti upp merki og skipaði þar húskörlum sínum undir merkið og þar með Háreki úr Þjóttu og hans liði.

Þórir hundur með sína sveit var í öndurðu brjósti fylkingar fyrir merkjum. Þar var og valið lið af bóndum á tvær hliðar Þóri það sem snarpast var og best vopnað. Var sú fylking ger bæði löng og þykk og voru þar í fylkingu Þrændir og Háleygir. En hinn hægra veg frá fylkingunni var önnur fylking en til vinstri handar frá aðalfylkingu höfðu þeir fylking Rygir og Hörðar, Sygnir, Firðir og höfðu þar hið þriðja merki.