Heimskringla/Ólafs saga helga/220
Kálfur Árnason tók þá til máls: „Þess munum vér þurfa um ráð það er vér höfum upp tekið að gera það eigi að hégómamáli er herinn er saman kominn. Munum vér annars þurfa, ef vér skulum halda orustu við Ólaf konung, en þess að hver færi sig undan að taka upp vandann því að svo megum vér til ætla, þó að Ólafur hafi eigi lið mikið hjá her þeim er vér höfum, þá er þar öruggur oddvitinn og mun allt lið hans vera honum tryggt til fylgdar. En ef vér erum nú nokkuð skelfir er helst skulum vera forstjórar liðs vors og viljum vér eigi treysta herinn og eggja og veita fyrirgöngu, þá mun þegar fjöldi hersins, það er stall mun hjarta drepa, og því næst hver sér ráðs leita. En þótt hér sé her mikill saman kominn þá munum vér þó koma í þá raun ef vér hittumst og Ólafur konungur með her sinn, að oss er ósigurinn vís nema vér séum skeleggir sjálfir ráðamennirnir en múgurinn geysist fram með einu samþykki. En ef eigi verður svo þá er oss betra að hætta eigi til bardaga og mun þá sá kostur auðsær þykja að hætta til miskunnar Ólafs, ef hann þótti þá harður er minni voru sakir til en nú mun honum þykja. En þó veit eg að svo er mönnum skipað í liði hans að mér mun þar griða kostur ef eg vil þess leita. Nú ef þér viljið sem eg, þá skaltu Þórir mágur og þú Hárekur ganga undir merki það er vér skulum allir upp reisa og fylgja síðan. Gerumst vér allir snarpir og skeleggir í þessum ráðum er vér höfum upp tekið og höldum svo fram bóndaherinum að þeir megi eigi finna á oss æðru. Og mun það alþýðuna fram eggja ef vér göngum glaðir til að fylkja og eggja liðið.“
En er Kálfur hafði lokið að tala erindi sitt þá vikust allir vel undir ræðu hans og segja að þeir vildu það allt hafa sem Kálfur sæi ráð fyrir þeim. Vildu það þá allir að Kálfur væri höfðingi fyrir liðinu og skipaði þar hverjum í sveit sem hann vildi.