Heimskringla/Ólafs saga helga/225

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá er liðið hvorttveggja stóð og kenndust menn þá mælti konungur: „Hví ertu þar Kálfur, því að vér skildumst vinir suður á Mæri? Illa samir þér að berjast í móti oss eða skjóta geigurskot í lið vort því að hér eru fjórir bræður þínir.“

Kálfur svarar: „Mart fer nú annan veg konungur en best mundi sama. Skildust þér svo við oss að nauðsyn bar til að friðast við þá er eftir voru. Verður nú hver að vera þar sem staddur er en sættast mundum við enn ef eg skyldi ráða.“

Þá svarar Finnur: „Það er mark á um Kálf, ef hann mælir vel, að þá er hann ráðinn til að gera illa.“

Konungur mælti: „Vera kann það Kálfur að þú viljir sættast en ekki friðlega þykir mér þér láta bændurnir.“

Þá svarar Þorgeir af Kvistsstöðum: „Þér skuluð nú hafa slíkan frið sem margir hafa áður af yður haft og munuð þér nú þess gjalda.“

Konungur svarar: „Eigi þarftu að fýsast svo mjög til vors fundar því að eigi mun þér sigurs auðið í dag á oss því að eg hefi hafið þig til ríkis af litlum manni.“