Heimskringla/Ólafs saga helga/237

Úr Wikiheimild

Þórir hundur kom fimmtadag ofan úr Veradal út á Stiklastaði og fylgdi honum lið mart. Þar var og mart fyrir bóndalið. Var þá enn rofinn valurinn. Fluttu menn brott lík frænda sinna og vina og veittu hjálp sárum mönnum þeim er menn vildu græða. En fjöldi manns hafði þá andast síðan er lokið var bardaga.

Þórir hundur gekk þar til er konungur hafði fallið og leitaði líksins og er hann fann það eigi spurðist hann fyrir ef nokkur maður kynni segja honum hvar líkið væri komið en það vissi engi að segja. Þá spurði hann Þorgils bónda ef hann vissi nokkuð til hvar lík konungs var.

Þorgils svarar svo: „Ekki var eg í bardaga. Veit eg þaðan fá tíðindi. Fara nú margar sögur. Það er nú sagt að Ólafur konungur hafi hittur verið í nótt uppi hjá Staf og sveit manna með honum. En ef hann hefir fallið þá munu sveitungar yðrir hafa fólgið lík hans í holtum eða hreysum.“

En þótt Þórir þættist vita hið sanna, að konungur var fallinn, þá tóku þó margir undir og gerðu þann kurr að konungur mundi hafa brott komist úr orustu og skammt mundi til að hann mundi fá her og koma á hendur þeim.

Fór þá Þórir til skipa sinna og síðan út eftir firði. Þá tók að dreifast allt bóndaliðið og fluttu brott hina sáru menn, alla þá er hrærandi voru.