Heimskringla/Ólafs saga helga/238

Úr Wikiheimild

Þorgils Hálmuson og þeir Grímur feðgar höfðu í sinni varðveislu lík Ólafs konungs og voru um það mjög hugsjúkir hvernug þeir fengju til gætt að eigi næðu óvinir konungs að misfara með líkinu því að þeir heyrðu þær ræður bónda að það ráð mundi til liggja ef lík konungs fyndist að brenna það eða flytja út á sæ og sökkva niður. Þeir feðgar höfðu séð um nóttina svo sem kertislog brynni þar yfir er lík Ólafs konungs var í valnum og svo síðan er þeir höfðu fólgið líkið þá sáu þeir jafnan um nætur ljós þannug til er konungurinn hvíldi. Þeir hræddust að óvinir konungs mundu leita líksins þar er var ef þeir sæju þessi merki. Var þeim Þorgilsi títt að flytja líkið í brott til þess staðar nokkurs er það væri vel komið. Þeir Þorgils gerðu kistu og vönduðu sem mest og lögðu þar í lík konungs en síðan gerðu þeir aðra líkkistu og báru þar í hálm og grjót svo að það skyldi vera mannshöfgi, lyktu þá kistu vandlega.

Og er brottu var af Stiklastöðum allt lið bónda þá bjuggu þeir Þorgils ferð sína. Fékk hann róðrarferju nokkura. Voru þeir saman menn sjö eða átta og allir frændur eða vinir Þorgils. Þeir fluttu lík konungs til skips leynilega og settu kistuna undir þiljur niður. Kistu þá höfðu þeir og með sér er grjótið var í, settu hana í skip svo að allir menn máttu sjá, fara síðan út eftir firði, fengu gott leiði, komu að kveldi er myrkva tók út til Niðaróss, lögðu að við konungsbryggju. Síðan sendi Þorgils menn upp í bæinn og lét segja Sigurði biskupi að þeir fóru þar með lík Ólafs konungs.

En er biskup spyr þessi tíðindi sendi hann þegar menn sína ofan á bryggjur. Þeir tóku þar róðrarskútu og lögðu að skipi Þorgils, báðu fá sér lík konungsins. Þeir Þorgils tóku þá kistu er uppi stóð á þiljunum og báru í skútuna. Síðan reru þeir menn út á fjörð og sökktu þeir þar niður kistunni. Þá var myrkt af nótt.

Þeir Þorgils reru þá upp eftir ánni til þess er þraut bæinn og lögðu þar að er Saurhlið heitir. Það var fyrir ofan bæinn. Þá báru þeir upp líkið og inn í eyðiskemmu nokkura er þar stóð upp frá öðrum húsum. Vöktu þeir þar um nóttina yfir líkinu.

Þorgils gekk ofan í bæinn. Fann hann þá menn að máli er helst höfðu þar verið vinir konungs. Spurði hann þá ef þeir vildu taka við líki konungs. Það þorði engi maður að gera.

Síðan fluttu þeir Þorgils líkið upp með ánni og grófu þar niður á sandmel þeim er þar verður, bjuggu þar um eftir svo að ekki skyldi þar nývirki á sjá. Höfðu þeir þessu lokið öllu áður dagaði, fóru þá til skips síns, lögðu þegar út úr ánni, fóru síðan ferðar sinnar til þess er þeir komu heim á Stiklastaði.