Heimskringla/Ólafs saga helga/247

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Sveinn konungur Knútsson réð fyrir Noregi nokkura vetur. Hann var bernskur bæði að aldri og að ráðum. Alfífa móðir hans hafði þá mest landráð og voru landsmenn miklir óvinir hennar, bæði þá og jafnan síðan. Danskir menn höfðu þá yfirgang mikinn í Noregi en landsmenn kunnu því illa. Þá er slíkar ræður voru uppi hafðar þá kenndu landsmenn aðrir það Þrændum að þeir hefðu mestu um valdið er Ólafur konungur hinn helgi var felldur frá landi en Noregsmenn höfðu lagst undir þetta illa ríki er ánauð og ófrelsi gekk þar yfir allt fólk, bæði ríka menn og óríka og alþýðu, kölluðu þeir Þrændi skylda til að veita uppreist „til þess að hrinda af oss þessu ríki.“

Var það og virðing landsmanna að Þrændir hefðu mestan styrk þá í Noregi af höfðingjum sínum og fjölmenni því er þar var.

En er Þrændir vissu að landsmenn veittu þeim ámæli þá könnuðust þeir við að það var sannmæli og þá hafði hent glæpska mikil er þeir höfðu Ólaf konung tekið af lífi og láði og það með að þeim var sín óhamingja miklu illu goldin. Höfðu þeir höfðingjar stefnur og ráðagerð sín á milli. Var þar Einar þambarskelfir upphafsmaður að þeim ráðum.

Svo var og um Kálf Árnason að þá fann hann í hverja snöru hann hafði gengið af áeggjan Knúts konungs. Þau heit er hann hafði Kálfi heitið eða veitt, þá rufust þau öll, því að Knútur konungur hafði Kálfi heitið jarldómi og yfirsókn um Noreg allan en Kálfur hafði verið höfuðsmaður að halda orustu við Ólaf konung og fella hann frá landi. Hafði Kálfur engar nafnbætur meiri en áður. Þóttist hann vera blekktur mjög og fóru þá orðsendingar milli þeirra bræðra, Kálfs og Finns, Þorbergs og Árna, og samdist þá frændsemi þeirra.