Heimskringla/Ólafs saga helga/248

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá er Sveinn hafði verið konungur þrjá vetur í Noregi spurðust þau tíðindi til Noregs að fyrir vestan haf efldist flokkur og var sá höfðingi fyrir er nefndur er Tryggvi. Hann kallaðist sonur Ólafs Tryggvasonar og Gyðu ensku.

En er Sveinn konungur spurði það að útlendur her mundi koma í land þá bauð hann liði út norðan úr landi og fóru flestir lendir menn með honum úr Þrándheimi. Einar þambarskelfir settist heima og vildi eigi fara með Sveini konungi.

En er orðsending Sveins konungs kom til Kálfs inn á Eggju, sú að hann skyldi róa leiðangur með konungi, þá tók Kálfur tvítugsessu er hann átti. Gekk hann þar á með húskarla sína og bjóst sem ákaflegast, hélt síðan út eftir firði og beið ekki Sveins konungs.

Hélt Kálfur síðan suður á Mæri, léttir þeirri ferð eigi fyrr en hann kom suður í Giska til Þorbergs bróður síns. Síðan lögðu þeir stefnu með sér allir bræður, Árnasynir, og höfðu ráðagerð milli sín. Eftir það fór Kálfur norður aftur.

En er hann kom í Frekeyjarsund þá lá þar fyrir í sundinu Sveinn konungur með her sinn. En er Kálfur reri sunnan í sundið þá kölluðust þeir á. Báðu konungsmenn Kálf að leggja og fylgja konungi og verja land hans.

Kálfur svarar: „Fullgert hefi eg það, ef eigi er ofgert, að berjast við vora landsmenn til ríkis Knýtlingum.“

Þeir Kálfur reru þá norður leið sína. Fór hann þá til þess er hann kom heim á Eggju. Engi þeirra Árnasona reri þenna leiðangur með Sveini konungi.

Sveinn konungur hélt liði sínu suður í land. En er hann spurði ekki til að herinn væri vestan kominn þá hélt hann suður á Rogaland og allt á Agðir því að menn gátu þess til að Tryggvi mundi vilja leita fyrst í Víkina austur því að þar hafði verið foreldri hans og haft traust mest. Átti hann þar mikinn frændastyrk.