Heimskringla/Ólafs saga helga/32

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur hinn digri snýr austur með landi og átti víða þing við búendur og ganga margir til handa honum en sumir mæla í móti, þeir er voru frændur eða vinir Sveins jarls. Fór Ólafur konungur fyrir því skyndilega austur til Víkur og heldur liði sínu inn í Víkina og setur upp skip sín, snýr þá á land upp.

Og er hann kom á Vestfold þá fögnuðu honum þar vel margir menn, þeir sem verið höfðu kunnmenn eða vinir föður hans. Þar var og mikil ætt hans um Foldina.

Hann fór um haustið á land upp á fund Sigurðar konungs mágs síns og kom þar snemma einnhvern dag. En er Ólafur konungur kemur nær býnum þá hljópu þar fyrir þjónustusveinar til bæjarins og inn í stofuna. Ásta móðir Ólafs konungs sat þar inni og konur nokkurar með henni. Þá segja sveinarnir henni um ferð Ólafs konungs og svo að hans var þangað brátt von.

Ásta stendur upp þegar og hét á karla og konur að búast um þar sem best. Hún lét fjórar konur taka búnað stofunnar og búa skjótt með tjöldum og um bekki. Tveir karlar báru hálminn á gólfið, tveir settu trapisuna og skapkerið, tveir settu borðið, tveir settu vistina, tvo sendi hún brott af býnum, tveir báru inn ölið en allir aðrir, konur og karlar, gengu út í garðinn. Sendimenn fóru til Sigurðar konungs þar sem hann var og færðu honum tignarklæði hans og hest hans með gylltum söðli en bitullinn settur smeltum og steinum og allur gylltur. Fjóra menn sendi hún fjögurra vegna í byggðina og bauð til sín öllu stórmenni að þiggja veislu er hún gerði fagnaðaröl í móti syni sínum. Alla menn aðra er fyrir voru lét hún taka hinn besta búnað er til áttu en þeim lánaði hún klæði er eigi áttu sjálfir.