Heimskringla/Ólafs saga helga/33

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Sigurður konungur sýr var þá staddur út á akri er sendimenn komu til hans og segja honum þessi tíðindi og svo allt það er Ásta lét aðhafast heima á bænum. Hann hafði þar marga menn. Sumir skáru korn, sumir bundu, sumir óku heim korni, sumir hlóðu í hjálma eða í hlöður. En konungur og tveir menn með honum gengu stundum á akurinn, stundum þar er hlaðið var korninu. Svo er sagt um búnað hans að hann hafði kyrtil blán og blár hosur, háva skúa og bundna að legg, grá kápu og grán hött víðan og url um andlit, staf í hendi og ofan á silfurhólkur gylltur og í silfurhringur.

Svo er sagt frá lunderni Sigurðar konungs að hann var sýslumaður mikill og búnaðarmaður um fé sitt og bú og réð sjálfur búnaði. Engi var hann skartsmaður og heldur fámálugur. Hann var allra manna vitrastur þeirra er þá voru í Noregi og auðgastur að lausafé. Hann var friðsamur og óágjarn. Ásta kona hans var ör og ríklunduð. Þessi voru börn þeirra: Guttormur var elstur, þá Gunnhildur, þá Hálfdan, þá Ingiríður, þá Haraldur.

Þá mæltu sendimenn: „Þau orð bað Ásta að við skyldum bera þér að nú þætti henni allmiklu máli skipta að þér tækist stórmannlega og bað þess að þú skyldir meir líkjast í ætt Haralds hins hárfagra að skaplyndi en Hrana mjónef móðurföður þínum eða Nereið jarli hinum gamla þótt þeir hafi verið spekingar miklir.“

Konungur segir: „Tíðindi mikil segið þér enda berið þér allákaflega. Látið hefir Ásta mikið yfir þeim mönnum fyrr, er henni var minni skylda til, og sé eg að sama skaplyndi hefir hún enn. Og tekur hún þetta með miklum ákafa ef hún fær svo út leiddan son sinn að það sé með þvílíkri stórmennsku sem nú leiðir hún hann inn. En svo líst mér ef þetta skal vera að þeir er sig veðsetja í þetta mál munu hvorki sjá fyrir fé sínu eða fjörvi. Þessi maður, Ólafur konungur, brýst í móti miklu ofurefli og á honum og hans ráðum liggur reiði Danakonungs og Svíakonungs ef hann heldur þessu fram.“