Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/35

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
35. Málstefna Ólafs konungs og Sigurðar konungs


En er Ólafur konungur hafði þar eigi lengi verið þá var það einnhvern dag að hann heimti til tals við sig og á málstefnu Sigurð konung mág sinn og Ástu móður sína og Hrana fóstra sinn.

Þá tók Ólafur konungur til máls: „Svo er,“ segir hann, „sem yður er kunnigt að eg em kominn hingað til lands og verið áður langa hríð utanlands. Hefi eg og mínir menn haft það einu alla þessa stund til framflutningar oss er vér höfum sótt í hernaði og í mörgum stöðum orðið til að hætta bæði lífi og sálu. Hefir margur maður fyrir oss, sá er saklaus hefir verið, orðið að láta féið en sumir lífið með. En yfir þeim eignum sitja útlendir menn er átti minn faðir og hans faðir og hver eftir annan vorra frænda og em eg óðalborinn til. Og láta þeir sér eigi það einhlítt heldur hafa þeir undir sig tekið eigur allra vorra frænda er að langfeðgatali erum komnir frá Haraldi hinum hárfagra. Miðla þeir sumum lítið af en sumum með öllu ekki.

Nú skal því upp lúka fyrir yður er mér hefir mjög lengi í skapi verið, að eg ætla að heimta föðurarf minn og mun eg hvorki koma á fund Danakonungs né Svíakonungs að biðja þá né einna muna um þótt þeir hafi nú um hríð kallað sína eign, það er var arfur Haralds hárfagra. Ætla eg heldur, yður satt til að segja, að sækja oddi og eggju frændleifð mína og kosta þar að allra frænda minna og vina og þeirra allra er að þessu ráði vilja hverfa með mér. Skal eg og svo upp hefja þetta tilkall að annaðhvort skal vera að eg skal eignast ríki það allt til forráða, er þeir felldu frá Ólaf konung Tryggvason frænda minn, eða eg skal hér falla á frændleifð minni.

Nú vænti eg um þig Sigurður mágur, eða aðra þá menn í landinu er óðalbornir eru hér til konungdóms að lögum þeim er setti Haraldur hárfagri, þá mun yður eigi svo mikilla muna ávant að þér munuð upp hefjast að reka af höndum frændaskömm þessa, að eigi munuð þér alla yður við leggja að efla þann er forgangsmaður vill vera að hefja upp ætt vora. En hvort sem þér viljið lýsa nokkurn manndóm um þenna hlut þá veit eg skaplyndi alþýðunnar að til þess væri öllum títt að komast undan þrælkan útlendra höfðingja þegar er traust yrði til. Hefi eg fyrir þá sök þetta mál fyrir engan mann borið fyrr en þig að eg veit að þú ert maður vitur og kannt góða forsjá til þess hvernug reisa skal frá upphafi þessa ætlan, hvort það skal fyrst ræða af hljóði fyrir nokkurum mönnum eða skal það bera þegar í fjölmæli fyrir alþýðu.

Hefi eg nú nokkuð roðið tönn á þeim er eg tók höndum Hákon jarl og er hann nú úr landi stokkinn og gaf hann mér með svardögum þann hluta ríkis er hann átti áður. Nú ætla eg oss munu léttara falla að eiga um við Svein jarl einn saman heldur en þá að þeir væru báðir til landvarnar.“

Sigurður konungur svarar nú: „Eigi býr þér lítið í skapi Ólafur konungur. Er þessi ætlan meir af kappi en forsjá að því sem eg virði enda er þess von að langt muni í milli vera lítilmennsku minnar og áhuga þess hins mikla er þú munt hafa, því að þá er þú varst lítt af barnsaldri kominn varstu þegar fullur af kappi og ójafnaði í öllu því er þú máttir. Ertu nú og reyndur mjög í orustum og samið þig eftir siðvenju útlendra höfðingja. Nú veit eg að svo fremi munt þú þetta hafa upp tekið að ekki mun tjá að letja þig. Er og vorkunn á að slíkir hlutir liggi í miklu rúmi þeim, er nokkurir eru kappsmenn, er öll ætt Haralds hárfagra og konungdómur fellur niður. En í engum heitum vil eg bindast fyrr en eg veit ætlan eða tiltekju annarra konunga á Upplöndum. En vel hefir þú það gert er þú lést mig fyrr vita þessa ætlan en þú bærir það í hámæli fyrir alþýðu.

Heita vil eg þér umsýslu minni við konunga og svo við aðra höfðingja eða annað landsfólk. Svo skal þér Ólafur konungur heimult fé mitt til styrks þér. En svo fremi vil eg að vér berum þetta fyrir alþýðu er eg sé að nokkur framkvæmd mætti að verða eða nokkur styrkur fæst til þessa stórræðis fyrir því að svo skaltu til ætla að mikið er í fang tekið ef þú vilt kappi deila við Ólaf Svíakonung og við Knút, er nú er bæði konungur í Englandi og Danmörk, og mun rammar skorður þurfa við að reisa ef hlýða skal. En ekki þykir mér ólíklegt að þér verði gott til liðs því að alþýðan er gjörn til nýjungarinnar. Fór svo fyrr er Ólafur konungur Tryggvason kom til lands að allir urðu því fegnir og naut hann þó eigi lengi konungdómsins.“

Þá er svo var komið ræðunni tók Ásta til orða: „Svo er mér um gefið sonur minn að eg em þér fegin orðin og því fegnust að þinn þroski mætti mestur verða. Vil eg til þess engi hlut spara þann er eg á kosti en hér er lítt til ráðastoða að sjá er eg em. En heldur vildi eg, þótt því væri að skipta að þú yrðir yfirkonungur í Noregi þótt þú lifðir eigi lengur í konungdóminum en Ólafur konungur Tryggvason, heldur en hitt, að þú værir eigi meiri konungur en Sigurður sýr og yrðir ellidauður.“

Og eftir þessi orð slitu þeir málstefnunni.

Dvaldist Ólafur konungur þar um hríð með öllu liði sínu. Sigurður konungur veitti þeim annan hvern dag að borðhaldi fiska og mjólk en annan hvern slátur og mungát.