Heimskringla/Ólafs saga helga/43

Úr Wikiheimild

Þórður Sigvaldaskáld hét maður íslenskur. Hann hafði verið lengi með Sigvalda jarli og síðan með Þorkatli háva bróður jarls en eftir fall jarls þá var Þórður kaupmaður. Hann hitti Ólaf konung er hann var í vesturvíking og gerðist hans maður og fylgdi honum síðan. Var hann þá með konungi er þetta var tíðinda.

Sighvatur var sonur Þórðar. Hann var að fóstri með Þorkatli að Apavatni. En er hann var nálega vaxinn maður þá fór hann utan af landi með kaupmönnum og kom skip það um haustið til Þrándheims og vistuðust þeir menn í héraði. Þann sama vetur kom Ólafur konungur í Þrándheim svo sem nú var ritið.

En er Sighvatur spurði að Þórður faðir hans var þar með konungi þá fór Sighvatur til konungs, hitti Þórð föður sinn og dvaldist þar um hríð.

Sighvatur var snemma skáld gott. Hann hafði ort kvæði um Ólaf konung og bauð konungi að hlýða.

Konungur segir að hann vill ekki yrkja láta um sig, segir að hann kann ekki að heyra skáldskap.

Þá kvað Sighvatur:

Hlýð mínum brag, meiðir
myrkblás, því að kannk yrkja,
alltiginn, máttu eiga
eitt skald, drasils tjalda.
Þótt öllungis allra,
allvaldr, lofi skalda,
þér fæ eg hróðrs að hvoru
hlít, annarra nítið.

Ólafur konungur gaf Sighvati að bragarlaunum gullhring þann er stóð hálfa mörk.

Sighvatur gerðist hirðmaður Ólafs konungs. Þá kvað hann:

Eg tók lystr, né eg lasta,
leyfð íð er það síðan,
sóknar Njörðr við sverði,
sá er mínn vilji, þínu.
Þollr, gastu húskarl hollan,
höfum ráðið vel báðir,
látrs, en eg lánardrottin,
linns blóða, mér góðan.

Sveinn jarl hafði látið taka um haustið hálfa landaura af Íslandsfarinu svo sem fyrr var vant því að Eiríkur jarl og Hákon jarl höfðu þær tekjur sem aðrar að helmingi þar í Þrándheimi.

En er Ólafur konungur var þar kominn þá gerði hann til sína menn að heimta hálfa landaura af Íslandsförum en þeir fóru á fund konungs. Þeir báðu Sighvat liðveislu.

Þá gekk hann fyrir konung og kvað:

Gerbænn mun eg Gunnar
gamteitöndum heitinn,
áðr þágum vér ægis
eld, ef nú bið eg felda.
Landaura veittu, lúru
látrþverrandi, af knerri,
enn ofganga, engi,
eg hefi sjálfr krafið, hálfa.