Heimskringla/Ólafs saga helga/49

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur hafði á sínu skipi hundrað manna og höfðu allir hringabrynjur og valska hjálma. Flestir hans menn höfðu hvíta skjöldu og á lagður hinn helgi kross með gulli en sumir dregnir rauðum steini eða blám. Kross lét hann og draga í enni á öllum hjálmum með bleiku. Hann hafði hvítt merki, það var ormur. Þá lét hann veita sér tíðir, gekk síðan á skip sitt og bað menn snæða og drekka nokkuð. Síðan lét hann blása herblástur og leggja út úr höfninni.

En er þeir komu fyrir höfnina þar er jarl hafði legið þá var lið jarls vopnað og ætlaði þá að róa út úr höfninni. Er er þeir sáu konungslið þá tóku þeir að tengja skipin og settu upp merki og bjuggust við.

En er Ólafur konungur sá það þá greiddu þeir atróðurinn. Lagði konungur að jarls skipi. Tókst þar þá orusta.

Svo segir Sighvatur skáld:

Veitti sókn, þar er sótti,
siklingr firum mikla,
blóð féll rautt á Róða
rein, í höfn að Sveini.
Snjallr hélt að, sá er olli,
eirlaust konungr, þeira,
en Sveins liðar, sínum,
saman bundust skip, fundi.

Hér segir það að Ólafur konungur hélt til orustu en Sveinn lá fyrir í höfninni.

Sighvatur skáld var þar í orustu. Hann orti þegar um sumarið eftir orustu flokk þann er Nesjavísur eru kallaðar og segir þar vandlega frá þessum tíðindum:

Það erumk kunnt, hve kennir
Karlhöfða lét jarli
odda frosts fyr austan
Agðir nær um lagðan.

Orusta var hin snarpasta og var það langa hríð er ekki mátti yfir sjá hvernug hníga mundi. Féll þá mart af hvorumtveggjum og fjöldi varð sárt.

Svo segir Sighvatur:

Vara, sigmána, Sveini
sverða gnýs að frýja,
gjóðs né góðrar hríðar
gunnreifum Óleifi,
því að kvistingar kosta,
koma herr í stað verra,
áttu sín, þar er sóttust,
seggir hvorir tveggju.

Jarl hafði lið meira en konungur hafði einvalalið á sínu skipi, það er honum hafði fylgt í hernaði, og búið svo forkunnlega sem fyrr var sagt, að hver maður hafði hringabrynju. Urðu þeir ekki sárir.

Svo segir Sighvatur:

Teitr, sá eg okkr í ítru
allvalds liði falla,
gerðist harðr, um herðar,
hjördynr, svalar brynjur,
en mín að flug fleina
falsk und hjálm hinn valska,
okkr vissa eg svo, sessi,
svört skör, við her görva.

En er lið tók að falla á skipum jarls, en sumt sárt, og þynntist þá skipanin á borðunum.