Heimskringla/Ólafs saga helga/50

Úr Wikiheimild

Þá réðu til uppgöngu menn Ólafs konungs. Var þá merkið upp borið á það skip er næst var jarlsskipi en konungur sjálfur fylgdi fram merkinu.

Svo segir Sighvatur:

Stöng óð gyllt, þar er gengum,
Göndlar serks, und merkjum,
gnýs, fyr göfgum ræsi,
greiðendr, á skip reiðir.
Þági var sem þessum
þengils á jó strengjar
mjöð fyr málma kveðju
mær heiðþegum bæri.

Þar var snörp orusta og féllu mjög Sveins menn en sumir hljópu þá fyrir borð.

Svo segir Sighvatur:

Vér drifum hvatt, þar er heyra
hátt vopnabrak knátti,
rönd klufu roðnir brandar,
reiðir upp á skeiðar,
en fyr borð, þar er börðust,
búin fengust skip, gengu,
nár flaut út við eyri
ófár, bændr sárir.

Og enn þetta:

Öld vann ossa skjöldu,
auðsætt var það, rauða,
hljóms, þá er hvítir komu,
hringmiðlendum, þingað.
Þar hykk ungan gram göngu,
gunnsylgs, er vér fylgdum,
blóðs fékk svör, þar er slæðust
sverð, upp í skip gerðu.

Þá tók að snúa mannfallinu upp á lið jarls. Sóttu þá konungsmenn að jarlsskipi og var við sjálft að þeir mundu upp ganga á skipið. En er jarl sá í hvert óefni komið var þá hét hann á frambyggja að þeir skyldu höggva tengslin og leysa skipin út. Þeir gerðu svo. Þá færðu konungsmenn stafnljá á skeiðarkylfuna og héldu þeim. Þá mælti jarl að stafnbúar skyldu af höggva kylfuna. Svo gerðu þeir.

Svo segir Sighvatur:

Sjálfr bað svartar kylfur
Sveinn harðlega skeina,
nær var áðr í óra
auðvon róið honum,
þá er til góðs, enn gjóði
gert fengust hræ svörtum
Yggs, lét her um höggvið
hrafni skeiðar stafna.

Einar þambarskelfir hafði sitt skip lagt á annað borð jarlsskipi. Köstuðu þeir þá akkeri í framstafn á jarlsskipi og fluttust þá svo allir samt út á fjörðinn. Eftir það flýði allt lið jarls og reri út á fjörðinn.

Bersi Skáld-Torfuson var í fyrirrúmi á skipi Sveins jarls. En er skipið leið fram frá flotanum þá segir Ólafur konungur hátt er hann kenndi Bersa, því að hann var auðkenndur, hverjum manni vænni og búinn forkunnarvel að vopnum og klæðum: „Farið heilir Bersi.“

Hann segir: „Verið heilir konungur.“

Svo segir Bersi í flokki þeim er hann orti þá er hann kom á vald Ólafs konungs og sat í fjötrum:

Hróðrs baðstu heilan líða
hagkennanda þenna,
en snarræki slíku
svarað unnum vér gunnar.
Orð seldum þau, elda
úthauðrs boða, trauðir
knarrar hafts, sem eg keypti
kynstórs, að við brynju.
Sveins raunir hef eg sénar
snart rekninga bjartar
þar er svaltungur sungu,
saman fórum vér, stórar,
Elgs mun eg eigi fylgja
út hríðboða síðan
hests að hverjum kosti
hranna, dýrra manni.
Krýp eg eigi svo sveigir
sára linns í ári,
búum ólítinn Áta
öndur þér til handa,
að eg herstefnir, hafni,
heiðmildr, eða eg þá leiðumk,
ungr kunni eg þar þröngvi
þínn, hollvini mína.