Heimskringla/Ólafs saga helga/57

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Ólafur konungur lét húsa konungsgarð í Niðarósi. Þar var ger mikil hirðstofa og dyr á báðum endum. Hásæti konungs var í miðri stofunni og innar frá sat Grímkell hirðbiskup hans en þar næst aðrir kennimenn hans en utar frá ráðgjafar hans. Í öðru öndugi gegnt honum sat stallari hans, Björn digri, þar næst gestir.

Ef göfgir menn komu til konungs var þeim vel skipað. Við elda skyldi þá öl drekka. Hann skipaði mönnum í þjónustur svo sem siður konunga var til. Hann hafði með sér sex tigu hirðmanna og þrjá tigu gesta og setti þeim mála og lög. Hann hafði og þrjá tigu húskarla er starfa skyldu í garðinum slíkt er þurfti og til að flytja. Hann hafði og marga þræla. Í garðinum var og mikill skáli er hirðmenn sváfu í. Þar var og mikil stofa er konungur átti hirðstefnur í.