Heimskringla/Ólafs saga helga/61

Úr Wikiheimild

Þegar er Ólafur konungur kom í Víkina og það spurðist þá fóru Danir í brott, þeir er þar höfðu sýslur af Danakonungi, og sóttu þeir til Danmerkur og vildu eigi bíða Ólafs konungs.

En Ólafur konungur fór inn eftir Víkinni og hafði þing við bændur. Gekk undir hann þar allt landsfólk. Tók hann þá allar konungsskyldir og dvaldist í Víkinni um sumarið. Hann hélt austur yfir Foldina úr Túnsbergi og allt austur um Svínasund. Þá tók til vald Svíakonungs. Hann hafði þar sett yfir sýslumenn Eilíf gauska um hinn nyrðra hlut en Hróa skjálga yfir hinn eystra hlut allt til Elfar. Hann átti ætt tveim megin Elfar en bú stór í Hísing. Hann var ríkur maður og stórauðigur. Eilífur var og stórættaður.

Þá er Ólafur konungur kom liði sínu í Ranríki þá stefndi hann þar þing við landsmenn og komu til hans þeir menn er eyjar byggðu eða nær sæ.

En er þing var sett þá talaði Björn stallari og bað bændur taka við Ólafi konungi, slíkt þar sem annars staðar hafði gert verið í Noregi.

Brynjólfur úlfaldi hét einn búandi göfugur. Hann stóð upp og mælti: „Vitum vér bændur hvert réttast er landaskipti að fornu milli Noregskonungs og Svíakonungs og Danakonungs, að Gautelfur hefir ráðið frá Væni til sævar en norðan Markir til Eiðaskógs en þaðan Kilir allt norður til Finnmarkar, svo og það að ýmsir hafa gengið á annarra lönd. Hafa Svíar löngum haft vald allt til Svínasunds en þó, yður satt til að segja, veit eg margra manna vilja til þess að betra þætti að þjóna Noregskonungi en menn bera eigi áræði til þess. Svíakonungs ríki er bæði austur frá oss og suður en þess von að Noregskonungur mun fara norður brátt í landið, þangað er landsmegin er meira, og höfum vér þá ekki afla til að halda deilu við Gauta. Nú verður konungur að sjá heilt ráð fyrir oss. Fúsir værum vér að gerast hans menn.“

En eftir þingið þá var Brynjólfur um kveldið í boði konungs og svo annan dag eftir og töluðu þeir mart sín í millum í einmælum. Fór þá konungur austur eftir Víkinni.

En er Eilífur spurði að konungur var þar þá lét hann bera njósn til fara hans. Eilífur hafði þrjá tigu manna, sinna sveitunga. Hann var í byggðinni ofanverðri við markirnar og hafði þar búandasafnað.

Margir bændur fóru á fund Ólafs konungs en sumir sendu vináttuorð til hans. Þá fóru menn í milli Ólafs konungs og Eilífs og báðu bændur hvorntveggja lengi að þeir legðu þingstefnu milli sín og réðu frið með nokkuru móti, sögðu það Eilífi að þeim var þess von af konungi, ef ekki væri við skipast hans orð, að þeir mundu von eiga af honum afarkosta og kváðu eigi Eilíf skyldu lið skorta. Var þá ráðið að þeir skyldu ofan koma og eiga þing við bændur og konung.

En þá sendi konungur Þóri langa gestahöfðingja sinn og þá tólf saman til Brynjólfs. Þeir höfðu brynjur undir kyrtlum en höttu yfir hjálmum.

Eftir um daginn komu bændur fjölmennt ofan með Eilífi. Þar var þá Brynjólfur í hans liði og Þórir í hans sveit.

Konungur lagði skipum utan þar að er klettur nokkur var og gekk fram í sæinn. Gekk hann þar upp og lið hans, settist á klettinn en völlur var fyrir ofan og var þar búandaliðið en menn Eilífs stóðu uppi í skjaldborg fyrir honum.

Björn stallari talaði langt og snjallt af hendi konungs. En er hann settist niður þá stóð Eilífur upp og tók til máls og í því bili stóð upp Þórir langi og brá sverði og hjó til Eilífs á hálsinn svo að af gekk höfuðið. Þá hljóp upp allt búandaliðið en hinir gausku tóku rás undan. Drápu þeir Þórir nokkura menn af þeim.

En er herinn stöðvaðist og létti þysnum þá stóð konungur upp og mælti að bændur skyldu setjast niður. Þeir gerðu svo. Var þar mart talað en að lyktum varð það að bændur gengu til handa konungi og játuðu honum hlýðni en hann hét þeim því í mót að skiljast eigi við þá og vera þar til þess að þeir Ólafur Svíakonungur lykju einn veg sínum vandræðum.

Eftir það lagði Ólafur konungur undir sig hina nyrðri sýsluna og fór um sumarið allt austur til Elfar. Fékk hann allar konungsskyldir með sænum og um eyjar.

En er á leið sumarið snerist hann aftur í Víkina norður og lagði upp eftir Raumelfi. Þar er foss mikill er Sarpur heitir. Nes gengur í ána norðan að fossinum. Þar lét Ólafur konungur gerða um þvert nesið af grjóti og torfi og viðum og grafa díki fyrir utan og gerði þar jarðborg mikla en í borginni efnaði hann til kaupstaðar. Þar lét hann húsa konungsgarð og gera Maríukirkju. Hann lét þar og marka tóftir til annarra garða og fékk þar menn til að húsa. Hann lét um haustið þangað flytja þau föng er til veturvistar þurfti og sat þar um veturinn með fjölmenni mikið en hafði menn sína í öllum sýslum. Hann bannaði allar flutningar úr Víkinni upp á Gautland, bæði síld og salt. Þess máttu Gautar illa án vera. Hann hafði mikið jólaboð, bauð til sín úr héruðum mörgum stórbúendum.