Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/60

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
60. Sætt Ólafs konungs og Erlings Skjálgssonar


Eftir það um vorið bauð Ólafur konungur liði út úr Þrándheimi og bjóst að fara austur í land.

Þá bjóst úr Niðarósi Íslandsfar. Þá sendi Ólafur konungur orð og jartegnir Hjalta Skeggjasyni og stefndi honum á fund sinn en sendi orð Skafta lögsögumanni og öðrum þeim mönnum er mest réðu lögum á Íslandi að þeir skyldu taka úr lögum er honum þótti mest í móti kristnum dómi. Þar með sendi hann vinsamleg orð öllum landsmönnum jafnsaman.

Konungur fór suður með landi og dvaldist í hverju fylki og þingaði við bændur. En á hverju þingi lét hann upp lesa kristin lög og þau boðorð er þar fylgdu. Tók hann þá þegar af við lýðinn margar óvenjur og heiðinn dóm því að jarlar höfðu vel haldið forn lög og landsrétt en um kristnihald létu þeir gera hvern sem vildi. Var þá svo komið að víðast um sjábyggðir voru menn skírðir en kristin lög voru ókunn flestum mönnum en um uppdali og fjallbyggðir var víða alheiðið, því að þegar er lýðurinn varð sjálfráða þá festist þeim það helst í minni um átrúnaðinn er þeir höfðu numið í barnæsku. En þeir menn er eigi vildu skipast við orð konungs um kristnihaldið, þá hét hann afarkostum bæði ríkum og óríkum. Ólafur var til konungs tekinn um allt land á hverju lögþingi. Mælti þá engi maður í móti honum.

Þá er hann lá í Karmtsundi fóru orð milli þeirra Erlings Skjálgssonar, þau að þeir skyldu sættast og var lagður sættarfundur í Hvítingsey.

En er þeir fundust töluðust þeir sjálfir við um sættina. Þótti Erlingi þá annað nokkuð finnast í orðum konungs en honum hafði verið frá sagt því að hann mælti til þess að hann vildi hafa veislur þær allar er Ólafur Tryggvason hafði fengið honum en síðan jarlar Sveinn og Hákon. „Mun eg þá gerast þinn maður og hollur vinur,“ segir hann.

Konungur segir: „Svo líst mér Erlingur sem eigi sé þér verra að taka af mér jafnmiklar veislur sem þú tókst af Eiríki jarli, þeim manni er þér hafði gert hinn mesta mannskaða. En eg mun þig láta vera göfgastan mann í landinu þó að eg vilji veislurnar miðla að sjálfræði mínu en eigi láta sem þér lendir menn séuð óðalbornir til ættleifðar minnar en eg skyldi margföldum verðum yðra þjónustu kaupa.“

Erlingur hafði ekki skaplyndi til að biðja konunginn né einna muna hér um því að hann sá að konungur var ekki leiðitamur. Sá hann og að tveir kostir voru fyrir höndum, sá annar að gera enga sætt við konung og hætta til hvernug færi eða ella láta konung einn fyrir ráða og tók hann þann upp þótt honum þætti mjög í móti skapi sínu og mælti til konungs: „Sú mun þér mín þjónusta hallkvæmst er eg veiti þér með sjálfræði.“

Þeir skildu ræðuna.

Eftir það gengu til frændur Erlings og vinir og báðu hann til vægja og færa við vit en eigi ofurkapp. „Muntu,“ segja þeir, „vera ávallt göfgastur lendra manna í Noregi bæði að framkvæmd þinni og frændum og fjárafla.“

Erlingur fann að þetta var heilræði og þeim gekk góðvilji til er slíkt mæltu. Gerir hann svo, gengur til handa konungi með þeim skildaga að konungur réð fyrir að skilja, skildust eftir það og voru sáttir að kalla. Fór Ólafur þá leið sína austur með landi.