Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/59

Úr Wikiheimild


Þann sama vetur komu austan úr Svíþjóð sendimenn Ólafs konungs hins sænska og réðu bræður tveir fyrir, Þorgautur skarði og Ásgautur ármaður, og höfðu fjóra menn og tuttugu.

En er þeir komu austan um Kjöl í Veradal þá stefndu þeir þing við bændur og töluðu við þá, heimtu þar skyld og skatt af hendi Svíakonungs. En bændur báru ráð sín saman og kom ásamt með þeim að þeir mundu gjalda slíkt sem Svíakonungur beiddi og heimti Ólafur konungur engar landskyldir af þeim fyrir sína hönd, kveðast eigi vilja gjalda hvorumtveggja skyldir.

Fóru sendimenn í brott og út eftir dalinum og á hverju þingi er þeir áttu fengu þeir af bóndum hin sömu svör en ekki fé, fóru þá út í Skaun og áttu þar þing og kröfðu þar enn skatta og fór allt á sömu leið sem fyrr.

Þá fóru þeir í Stjóradal og kröfðu þar þinga en bændur vildu ekki til koma. Þá sáu sendimenn að þeirra erindi varð ekki. Vildi Þorgautur þá aftur austur.

„Ekki þykir mér við konungserindi rekið hafa,“ segir Ásgautur. „Vil eg fara á fund Ólafs konungs digra, þó skjóta bændur þangað sínu máli.“

Nú réð hann og fóru þeir út til bæjarins og tóku þeir herbergi í bænum. Þeir gengu til konungs eftir um daginn, hann sat þá um borðum, kvöddu hann og segja að þeir fóru með erindum Svíakonungs. Konungur bað þá koma til sín eftir um daginn.

Annan dag, þá er konungur hafði hlýtt tíðum, gekk hann til þinghúss síns og lét þangað kalla menn Svíakonungs og bað þá bera upp erindi sín.

Þá talaði Þorgautur og segir fyrst hverra erinda þeir fóru og voru sendir og það síðan hvernug Innþrændir höfðu svarað. Eftir það beiddi hann að konungur veitti úrskurð hvert þeirra erindi skyldi þangað verða.

Konungur segir: „Meðan jarlar réðu hér fyrir landi þá var það ekki undarlegt að landsmenn væru þeim lýðskyldir, því að þeir voru hér ættbornir til ríkis, heldur en það að lúta til útlendra konunga, og var þó réttara að jarlar veittu hlýðni og þjónustu konungum, þeim er réttkomnir voru hér til ríkis, heldur en útlendum konungum og að hefjast upp með ófriði í móti réttum konungum og fella þá frá landi. En Ólafur sænski konungur er kallar til Noregs, þá veit eg eigi hverja tiltölu hann hefir þá er sannleg sé, en hitt megum vér muna hvern mannskaða vér höfum fengið af honum og hans frændum.“

Þá segir Ásgautur: „Eigi er undarlegt að þú sért kallaður Ólafur digri. Allstórlega svarar þú orðsending slíks höfðingja. Óglöggt veistu hversu þungbær þér mun vera reiði konungs og hefir þeim svo orðið er voru með meira krafti en mér sýnist þú munu vera. En ef þú vilt þrálega halda ríkinu þá mun þér hinn til að fara á fund hans og gerast hans maður. Munum vér þá biðja með þér að hann fái þér að láni þetta ríki.“

Þá segir konungur og tók hóglega til orða: „Eg vil ráða þér annað ráð Ásgautur. Farið nú aftur austur til konungs yðars og segið honum svo að snemma í vor mun eg búast að fara austur til landamæris þar er að fornu hefir skilt ríki Noregskonungs og Svíakonungs. Má hann þá þar koma ef hann vill að við semjum sætt okkra og hafi það ríki hvor okkar sem óðalborinn er til.“

Þá snúa sendimenn í brott og aftur til herbergis og bjuggust í brott en konungur gekk til borða. Sendimenn gengu þá í konungsgarðinn og er durverðir sáu það segja þeir konungi.

Hann bað þá sendimenn eigi inn láta. „Eg vil ekki við þá mæla,“ segir hann.

Fóru þá sendimenn í brott.

Þá segir Þorgautur að hann mun aftur snúa og hans menn en Ásgautur segir að hann vill reka konungserindi. Þá skiljast þeir.

Fer þá Þorgautur inn á Strind en Ásgautur og þeir tólf saman snúa upp til Gaulardals og svo út til Orkadals. Hann ætlar að fara suður á Mæri og reka þar sýslu Svíakonungs.

En er Ólafur konungur varð þess var þá sendi hann gestina út eftir þeim. Þeir hittu þá út á Nesi við Stein, tóku þá höndum og leiddu inn á Gaularás, reistu þar gálga og hengdu þá þar er sjá mátti utan af firði af þjóðleið.

Þorgautur spurði þessi tíðindi áður hann fór úr Þrándheimi. Fór hann síðan alla leið þar til er hann hitti Svíakonung og segir honum það er gerst hafði í þeirra för. Konungur varð allreiður er hann heyrði þetta sagt. Skorti þar þá eigi stór orð.