Heimskringla/Ólafs saga helga/66

Úr Wikiheimild

Maður hét Guðleikur gerski. Hann var æskaður af Ögðum. Hann var farmaður og kaupmaður mikill, auðigur og rak kaupferðir til ýmissa landa. Hann fór austur í Garðaríki oftlega og var hann fyrir þá sök kallaður Guðleikur gerski.

Það vor bjó Guðleikur skip sitt og ætlaði að fara um sumarið til Garða austur. Ólafur konungur sendi honum orð að hann vill hitta hann.

En er Guðleikur kom til hans segir konungur honum að hann vill gera félag við hann, bað hann kaupa sér dýrgripi þá er torugætir eru þar í landi. Guðleikur segir það á konungs forráði vera skulu. Þá lætur konungur greiða í hendur honum fé slíkt sem honum sýndist.

Fór Guðleikur um sumarið í Austurveg. Þeir lágu nokkura hríð við Gotland. Var þá sem oft kann verða að eigi voru allir haldinorðir og urðu landsmenn varir við að á því skipi var félagi Ólafs digra. Guðleikur fór um sumarið í Austurveg til Hólmgarðs og keypti þar pell ágætleg er hann ætlaði konungi til tignarklæða sér og þar með skinn dýr og enn borðbúnað forkunnlegan.

Um haustið er Guðleikur fór austan þá fékk hann andviðri og lágu þeir mjög lengi við Eyland. Þorgautur skarði hafði um haustið borið njósn um farar Guðleiks. Kom hann þar að þeim með langskip og barðist við þá. Þeir vörðust lengi en fyrir því að liðsmunur var mikill þá féll Guðleikur og mart skipverja hans og mart var sárt. Tók Þorgautur fé þeirra allt og gersemar Ólafs konungs. Skiptu þeir Þorgautur fengi sínu öllu að jafnaði en hann segir að gersemar skal hafa Svíakonungur „og er það,“ segir hann, „nokkur hlutur af skatti þeim er hann á að taka af Noregi.“

Þorgautur fór þá austur til Svíþjóðar. Þessi tíðindi spyrjast brátt.

Eyvindur úrarhorn kom litlu síðar til Eylands. En er hann spyr þetta þá siglir hann austur eftir þeim Þorgauti og hittast þeir í Svíaskerjum og börðust. Þar féll Þorgautur og flest lið hans eða hljóp á kaf. Tók þá Eyvindur fé það allt er þeir höfðu tekið af Guðleiki og svo gersemar Ólafs konungs.

Eyvindur fór aftur til Noregs um haustið. Færði hann þá Ólafi konungi gersemar sínar. Þakkaði konungur honum vel sína ferð og hét honum þá enn af nýju vináttu sinni. Þá hafði Ólafur konungur verið þrjá vetur konungur í Noregi.