Heimskringla/Ólafs saga helga/67

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Það sama sumar hafði Ólafur konungur leiðangur úti og fór þá enn austur til Elfar og lá þar lengi um sumarið.

Þá fóru orðsendingar milli Ólafs konungs og Rögnvalds jarls og Ingibjargar Tryggvadóttur konu jarls. Hún gekk að með öllu kappi að veita Ólafi konungi. Hún var aftakamaður mikill um þetta mál. Hélt þar til hvorttveggja að frændsemi var mikil með þeim Ólafi konungi og henni og það annað að henni mátti eigi fyrnast við Svíakonung það, er hann hafði verið að falli Ólafs Tryggvasonar bróður hennar, og þóttist fyrir þá sök eiga tiltölu að ráða fyrir Noregi. Varð jarl af fortölum hennar mjög snúinn til vináttu Ólafs konungs. Kom svo að þeir konungur og jarl lögðu stefnu með sér og hittust við Elfi, ræddu þar marga hluti og mjög um viðskipti þeirra Noregskonungs og Svíakonungs og sögðu báðir það sem satt var að hvorumtveggjum, Víkverjum og Gautum, var hin mesta landsauðn í því að eigi skyldi vera kaupfriður milli landa og að lyktum settu þeir grið milli sín til annars sumars. Gáfust þeir gjafir að skilnaði og mæltu til vináttu.

Fór þá konungur norður í Víkina og hafði hann þá konungstekjur allar til Elfar og allt landsfólk hafði þá undir hann gengið.

Ólafur konungur sænski lagði óþokka svo mikinn á Ólaf Haraldsson að engi maður skyldi þora að nefna hann réttu nafni svo að konungur heyrði. Þeir kölluðu hann hinn digra mann og veittu honum harðar átölur jafnan er hans var getið.