Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/68

Úr Wikiheimild


Bændur í Víkinni ræddu sín í milli að sá einn væri til að konungar gerðu sætt og frið milli sín og töldust illa við komnir ef konungar herjuðust á en engi þorði þenna kurr djarflega upp að bera fyrir konungi. Þá báðu þeir til Björn stallara að hann skyldi þetta mál flytja fyrir konungi að hann sendi menn á fund Svíakonungs að bjóða sættir af sinni hendi.

Björn var trauður til og mæltist undan en við bæn margra vina sinna þá hét hann að lyktum að ræða þetta fyrir konungi en kvað svo hugur um segja sem konungur mundi ómjúklega taka því að vægja í né einum hlut við Svíakonung.

Það sumar kom utan af Íslandi Hjalti Skeggjason að orðsendingu Ólafs konungs. Fór hann þegar á fund Ólafs konungs og konungur tók vel við honum, bauð Hjalta með sér að vera og vísaði honum til sætis hjá Birni stallara og voru þeir mötunautar. Gerðist þar brátt góður félagsskapur.

Eitthvert sinn þá er Ólafur konungur hafði stefnu við lið sitt og við búendur og réðu landráðum þá mælti Björn stallari: „Hverja ætlan hafið þér á konungur um ófrið þann er hér er á milli Ólafs Svíakonungs og yðar? Nú hafa hvorirtveggju menn látið fyrir öðrum en engi úrskurður er nú heldur en áður hvað hvorir skulu hafa af ríkinu. Þér hafið hér setið í Víkinni einn vetur og tvö sumur og látið að baki yður allt landið norður héðan. Nú leiðist mönnum hér að sitja, þeim er eignir eða óðul eiga norður í landi. Nú er það vilji lendra manna og annarra liðsmanna og svo bónda að einn veg skeri úr og fyrir því að nú eru grið og friður settur við jarl og Vestur-Gauta, er hér eru nú næstir, þá þykir mönnum sá helst kostur til að þér sendið menn til Svíakonungs að bjóða sætt af yðarri hendi og munu margir menn vel undir það standa, þeir er með Svíakonungi eru, því að það er hvorratveggju gagn, þeirra er löndin byggja bæði hér og þar.“

Að ræðu Bjarnar gerðu menn góðan róm.

Þá mælti konungur: „Ráð þetta Björn er þú hefir hér upp borið, þá er það maklegast að þú hafir fyrir þér gert og skaltu fara þessa sendiför. Nýtur þú ef vel er ráðið en ef mannháski gerist af þá veldur þú of miklu sjálfur um. Er það og þín þjónusta að tala í fjölmenni það er eg vil mæla láta.“

Þá stóð konungur upp og gekk til kirkju, lét syngja sér hámessu. Síðan gekk hann til borða.

Um daginn eftir mælti Hjalti til Bjarnar: „Hví ertu ókátur maður? Ertu sjúkur eða reiður manni nokkurum?“

Björn segir þá ræðu þeirra konungs og segir þetta forsending.

Hjalti segir: „Svo er konungum að fylgja að þeir menn hafa metnað mikinn og eru framar virðir en aðrir menn en oft verða þeir í lífsháska og verður hvorutveggja vel að kunna. Mikið má konungs gæfa. Nú mun frami mikill fást í ferðinni ef vel tekst.“

Björn mælti: „Auðveldlega tekur þú á um ferðina. Muntu fara vilja með mér því að konungur mælti að eg skyldi mína sveitunga hafa í ferðina með mér.“

Hjalti segir: „Fara skal eg að vísu ef þú vilt því að vanfengur mun mér þykja sessunauturinn annar ef við skiljumst.“