Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/7

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
7. Hernaður í Svíþjóð


Ólafur konungur hélt þá austur fyrir Svíþjóð og lagði inn í Löginn og herjaði á bæði lönd. Hann lagði allt upp til Sigtúna og lá við fornu Sigtúnir. Svo segja Svíar að þar séu enn grjóthlöð þau er Ólafur lét gera undir bryggjusporða sína.

En er haustaði þá spurði Ólafur konungur til þess að Ólafur Svíakonungur dró saman her mikinn og svo það að hann hafði járnum komið yfir Stokksund og sett lið fyrir. En Svíakonungur ætlaði að Ólafur konungur mundi þar bíða frera og þótti Svíakonungi lítils vert um her Ólafs konungs því að hann hafði lítið lið.

Þá fór Ólafur konungur út til Stokksunda og komst þar eigi út. Kastali var fyrir austan sundið en her manns fyrir sunnan. En er þeir spurðu að Svíakonungur var á skip kominn og hafði her mikinn og fjölda skipa þá lét Ólafur konungur grafa út í gegnum Agnafit til hafs. Þá voru regn mikil. En um alla Svíþjóð fellur hvert rennanda vatn í Löginn en einn ós er til hafs úr Leginum og svo mjór að margar ár eru breiðari. En þá er regn eru mikil og snjánám þá falla vötnin svo æsilega að fossfall er út um Stokksund en Lögurinn gengur svo mjög upp á löndin að víða flóar. En er gröfturinn kom út í sjáinn þá hljóp vatnið og straumurinn út. Lét þá Ólafur konungur á skipum sínum leggja öll stýri úr lagi og draga segl við hún. Byr var á blásandi. Þeir stýrðu með árum og gengu skipin mikinn út yfir grunnið og komu öll heil á hafið.

En Svíar fóru þá á fund Ólafs Svíakonungs og sögðu honum að Ólafur digri var þá kominn út á haf. Svíakonungur veitti þeim stórar átölur er gætt skyldu hafa að Ólafur kæmist eigi út. Það er nú síðan kallað Konungssund og má þar ekki stórskipum fara nema þá er vötn æsast mest.

En það er sumra manna sögn að Svíar yrðu varir við þá er þeir Ólafur höfðu út grafið fitina og vatnið féll út, og svo að Svíar fóru þá til með her manns og ætluðu að banna Ólafi að hann færi út, en er vatnið gróf út tveggja vegna þá féllu bakkarnir og þar fólkið með og týndist þar fjöldi liðs. En Svíar mæla þessu í mót og telja hégóma að þar hafi menn farist.

Ólafur konungur sigldi um haustið til Gotlands og bjóst þar að herja. En Gotar höfðu þar safnað og gerðu menn til konungs og buðu honum gjald af landinu. Það þekktist konungur og tekur gjald af landinu og sat þar um veturinn.

Svo segir Óttar:

Gildir, komstu að gjaldi
gotneskum her, flotna.
Þorðut þér að varða
þjóðlönd firar röndu.
Rann, en maðr of minna
margr býr of þrek, varga
hungr frá eg austr, en yngvi,
Eysýslu lið, þeyja.