Heimskringla/Ólafs saga helga/8

Úr Wikiheimild

Hér segir svo að Ólafur konungur fór er voraði austur til Eysýslu og herjaði, veitti þar landgöngu en Eysýslir komu ofan og héldu orustu við hann. Þar hafði Ólafur konungur sigur, rak flótta, herjaði og eyddi landið.

Svo er sagt að fyrst er þeir Ólafur konungur komu í Eysýslu þá buðu bændur honum gjald. En er gjaldið kom ofan þá gekk hann í móti með liði alvopnuðu og varð þá annan veg en bændur ætluðu því að þeir fóru ofan með ekki gjald heldur með hervopnum og börðust við konung sem fyrr var sagt.

Svo segir Sighvatur skáld:

Þar var enn er önnur
Ólafr, né svik fólust,
oddaþing í eyddri
Eysýslu gekk heyja.
Sitt áttu fjör fótum,
fár beið úr stað sára,
enn þeir er undan runnu,
allvaldr, búendr gjalda.