Heimskringla/Ólafs saga helga/9

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Síðan sigldi hann aftur til Finnlands og herjaði þar og gekk á land upp, en lið allt flýði á skóga, og eyddi byggðina að fé öllu. Konungur gekk upp á landið langt og yfir skóga nokkura. Þar voru fyrir dalbyggðir nokkurar. Þar heita Herdalar. Þeir fengu lítið fé en ekki af mönnum. Þá leið á daginn og sneri konungur ofan aftur til skipa.

En er þeir komu á skóginn þá dreif lið að þeim öllum megin og skaut á þá og sóttu að fast. Konungur bað þá hlífa sér og vega í mót slíkt er þeir mættu við komast. En það var óhægt því að Finnar létu skóginn hlífa sér. En áður konungur kæmi af skóginum lét hann marga menn og margir urðu sárir, kom síðan um kveldið til skipa.

Þeir Finnar gerðu um nóttina æðiveður með fjölkynngi og storm sjávar. En konungur lét upp taka akkerin og draga segl og beittu um nóttina fyrir landið. Mátti þá enn sem oftar meira hamingja konungs en fjölkynngi Finna. Fengu þeir beitt um nóttina fyrir Bálagarðssíðu og þaðan í hafið út. En her Finna fór hið efra svo sem konungur sigldi hið ytra.

Svo segir Sighvatur:

Hríð varð stáls í stríðri
ströng Herdalagöngu
Finnlendinga að fundi
fylkis niðs hin þriðja.
En austr við lá leysti
leið víkinga skeiðar.
Bálagarðs að barði
brimskíðum lá síða.