Heimskringla/Ólafs saga helga/72
Einnhvern dag gekk Hjalti fyrir konung og skáldin með honum.
Þá tók Hjalti til máls: „Svo er konungur sem yður er kunnigt að eg em hér kominn á þinn fund og hefi eg farið langa leið og torsótta. En síðan er eg kom yfir hafið og eg spurði til tignar yðarrar þá þótti mér ófróðlegt að fara svo aftur að eigi hefði eg séð yður og vegsemd yðra. En það eru lög milli Íslands og Noregs að íslenskir menn, þá er þeir koma til Noregs, gjalda þar landaura. En er eg kom yfir haf þá tók eg við landaurum allra skipverja minna en fyrir því að það veit eg að það er réttast að þér eigið það veldi er í Noregi er þá fór eg á yðarn fund að færa yður landaurana,“ sýndi þá konunginum silfrið og hellti í skaut Gissuri svarta tíu mörkum silfurs.
Konungur mælti: „Fáir hafa oss slíkt fært um hríð úr Noregi. Vil eg Hjalti kunna yður þökk og aufúsu fyrir það er þér hafið svo mikla stund á lagt að færa oss landaurana heldur en gjalda óvinum vorum en þó vil eg að fé þetta þiggir þú af mér og með vináttu mína.“
Hjalti þakkaði konungi með mörgum orðum.
Þaðan af kom Hjalti sér í hinn mesta kærleik við konung og var oft á tali við hann. Þótti konungi sem var að hann var vitur maður og orðsnjallur.
Hjalti segir Gissuri og Óttari að hann er sendur með jartegnum til trausts og vináttu til Ingigerðar konungsdóttur og biður að þeir skyldu koma honum til tals við hana. Þeir kveða sér lítið fyrir því, ganga einnhvern dag til húsa hennar. Sat hún þar og drakk með marga menn.
Hún fagnaði vel skáldunum því að þeir voru henni kunnir. Hjalti bar henni kveðju Ingibjargar konu jarls og segir að hún hefði sent hann þangað til trausts og vináttu og bar fram jartegnir. Konungsdóttir tók því vel og kvað honum heimila skyldu sína vináttu. Sátu þeir þar lengi dags og drukku. Spurði konungsdóttir Hjalta margra tíðinda og bað hann þar oft koma til tals við sig.
Hann gerði svo, kom þar oftlega og talaði við konungsdóttur, segir henni þá af trúnaði frá ferð þeirra Bjarnar og spyr hvað hún hyggur, hvernug Svíakonungur muni taka þeim málum að sætt væri ger milli þeirra konunga.
Konungsdóttir segir og kvaðst það hyggja að þess mundi ekki leita þurfa að konungur mundi sætt gera við Ólaf digra, sagði að konungur var svo reiður orðinn Ólafi að eigi má hann heyra að hann væri nefndur.
Það var einn dag að Hjalti sat fyrir konunginum og talaði við hann. Var þá konungur allkátur og drukkinn mjög.
Þá mælti Hjalti til konungs: „Allmikla tign má hér sjá margs konar og er mér það að sjón orðið er eg hefi oft heyrt frá sagt að engi konungur er jafngöfugur á Norðurlönd sem þú. Allmikill harmur er það er vér eigum svo langt hingað að sækja og svo meinfært, fyrst hafsmegin mikið en þá ekki friðsamt að fara um Noreg þeim mönnum er hingað vilja sækja með vináttu. Eða hvort leita menn ekki við að bera sáttmál meðal ykkar Ólafs digra? Mjög heyrði eg það rætt í Noregi og svo í Vestra-Gautlandi að allir mundu þess fúsir vera að friður yrði og það var mér sagt með sannindum frá orðum Noregskonungs að hann væri fús að sættast við yður og veit eg að það mun til koma að hann mun sjá það að hann hefir miklu minna afla en þér hafið. Svo var það mælt og að hann ætlaði að biðja Ingigerðar dóttur þinnar og er slíkt og vænst til heilla sátta og er hann hinn mesti merkismaður að því er eg heyrði réttorða menn frá segja.“
Þá svarar konungur: „Ekki skaltu mæla slíkt Hjalti en eigi vil eg fyrirkunna þig þessa orða því að þú veist eigi hvað varast skal. Ekki skal þann hinn digra mann konung kalla hér í minni hirð og er til hans miklu minna skot en margir láta yfir og mun þér svo þykja ef eg segi þér að sú mægð megi eigi makleg vera því að eg em hinn tíundi konungur að Uppsölum, svo að hver hefir eftir annan tekið vorra frænda og verið einvaldskonungur yfir Svíaveldi og yfir mörgum öðrum stórum löndum og verið allir yfirkonungar annarra konunga á Norðurlöndum.
En í Noregi er lítil byggð og þó sundurlaus. Hafa þar verið smákonungar en Haraldur hinn hárfagri var mestur konungur í því landi og átti hann skipti við fylkiskonunga og braut þá undir sig. Kunni hann sér þann hagnað að ágirnast ekki Svíakonungs veldi. Létu Svíakonungar hann fyrir því sitja í friði og enn var það til að frændsemi var meðal þeirra. En þá er Hákon Aðalsteinsfóstri var í Noregi þá sat hann í friði þar til er hann herjaði í Gautland og Danmörk en síðan var efldur flokkur á hendur honum og var hann felldur frá löndum. Gunnhildarsynir voru og af lífi teknir þegar er þeir gerðust óhlýðnir Danakonungi. Lagði þá Haraldur Gormsson Noreg við sitt ríki og skattgildi. Og þótti oss þó Haraldur konungur Gormsson vera minni fyrir sér en Uppsalakonungar því að Styrbjörn frændi vor kúgaði hann og gerðist Haraldur hans maður en Eiríkur hinn sigursæli faðir minn steig þó yfir höfuð Styrbirni þá er þeir reyndu sín á milli. En er Ólafur Tryggvason kom í Noreg og kallaðist konungur þá létum vér honum það eigi hlýða. Fórum við Sveinn Danakonungur og tókum hann af lífi.
Nú hefi eg eignast Noreg og eigi með minna ríki en þú máttir nú heyra og eigi verr að komist en eg hefi sótt með orustu og sigrað þann konung er áður réð fyrir. Máttu ætla, vitur maður, að það mun fjarri fara að eg láti laust það ríki fyrir þeim hinum digra manni. Og er það undarlegt er hann man eigi það er hann kom nauðulegast út úr Leginum þá er vér höfðum hann inni byrgt. Hygg eg að honum væri þá annað í hug, ef hann kæmist með fjörvi í brott, en það að halda oftar deilu við oss Svíana.
Nú skaltu Hjalti hafa eigi oftar í munni þessa ræðu fyrir mér.“
Hjalta þótti óvænt á horfast að konungur mundi vilja til hlýða sættaumleitanar. Hann hætti þá og tók aðra ræðu.
Nokkuru síðar þá er Hjalti var á tali við Ingigerði konungsdóttur sagði hann henni alla ræðu þeirra konungs. Hún kvað sér slíkra svara von af konungi. Hjalti bað hana nokkur orð til leggja við konung og kvað það helst tjá mundu.
Hún kvað konung ekki mundu á hlýða hvað sem hún mælti „en um má eg ræða,“ segir hún, „ef þú vilt.“
Hjalti kvaðst þess þökk kunna.
Ingigerður konungsdóttir var á tali við föður sinn einnhvern dag en er hún fann að konungi var skaplétt þá mælti hún: „Hverja ætlan hefir þú á um deilu ykkra Ólafs digra? Margir menn kæra nú það vandræði. Kallast sumir hafa látið fé, sumir frændur fyrir Norðmönnum og engum yðrum manni kvæmt í Noreg að svo búnu. Var það mjög ósynju er þér kölluðuð til ríkis í Noregi. Er land það fátækt og illt yfirfarar og fólk ótryggt. Vilja menn þar í landi hvern annan heldur að konungi en þig. Nú ef eg skyldi ráða mundir þú láta vera kyrrt að kalla til Noregs en brjótast heldur í Austurveg til ríkis þess er átt höfðu hinir fyrri Svíakonungar og nú fyrir skömmu lagði undir sig Styrbjörn frændi vor en láta Ólaf digra hafa frændleifð sína og gera sætt við hann.“
Konungur segir reiðulega: „Það er þitt ráð Ingigerður að eg láti af ríki í Noregi en gifti þig Ólafi digra. Nei,“ segir hann, „annað skal fyrr. Heldur mun hitt að í vetur á Uppsalaþingi skal eg gera bert fyrir öllum Svíum að almenningur skal úti að liði áður en ísa taki af vötnum. Skal eg fara í Noreg og eyða það land oddi og eggju og brenna allt og gjalda þeim svo ótrúleik sinn.“
Varð konungur þá svo óður að honum mátti engu orði svara. Gekk hún þá í brott.
Hjalti hélt vörð á og gekk þegar að finna hana. Spyr hann þá hvert erindi hennar varð til konungsins. Hún segir að svo fór sem hún vænti að engum orðum mátti við konunginn koma og hann heitaðist í mót og bað hún Hjalta aldrei geta þessa máls fyrir konungi.
Ingigerður og Hjalti, þá er þau töluðu, ræddu oftlega um Ólaf digra. Sagði hann henni oft frá honum og hans háttum og lofaði sem hann kunni, og var það sannast frá að segja. Hún lét sér það vel skiljast.
Og enn eitt sinn er þau töluðu þá mælti Hjalti: „Hvort skal eg konungsdóttir mæla það fyrir þér í orlofi er mér býr í skapi?“
„Mæl þú,“ segir hún, „svo að eg heyri ein.“
Þá mælti Hjalti: „Hvernug mundir þú svara er Ólafur Noregskonungur sendi menn til þín með þeim erindum að biðja þín?“
Hún roðnaði og svarar óbrátt og stillilega: „Ekki hefi eg hugfest svör fyrir mér um það því að eg ætla að eg muni eigi þurfa til að taka þeirra svara, en ef Ólafur er svo að sér ger um alla hluti sem þú segir frá honum þá mundi eg eigi kunna æskja minn mann á annan veg ef eigi er það að þér munuð heldur hóli gilt hafa í marga staði.“
Hjalti segir að engan hlut hefir hann betur látið um konunginn en var.
Þau ræddu þetta sín í milli mjög oftlega. Ingigerður bað Hjalta varast að mæla þetta fyrir öðrum mönnum „fyrir þá sök að konungurinn mun verða þér reiður ef hann verður þessa vís.“
Hjalti segir þetta skáldunum Gissuri og Óttari. Þeir kváðu það vera hið mesta happaráð ef framgengt mætti verða.
Óttar var máldjarfur maður og höfðingjakær. Var hann brátt að þessu máli við konungsdóttur og taldi upp fyrir henni slíkt sem Hjalti um mannkosti konungsins. Ræddu þau Hjalti oft öll saman um þetta mál.
Og er þau töluðu jafnan og Hjalti var sannfróður að orðinn um erindislok sín þá sendi hann brott hina gausku menn er honum höfðu þannug fylgt, lét þá fara aftur til jarls með bréfum þeim er Ingigerður konungsdóttir og þau Hjalti sendu jarli og Ingibjörgu. Hjalti lét og koma veður á þau um ræður þær er hann hafði upp hafið við Ingigerði og svo um svör hennar.
Komu sendimenn til jarls nokkuru fyrir jól.