Heimskringla/Ólafs saga helga/73

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá er Ólafur konungur hafði sent þá Björn austur á Gautland þá sendi hann aðra menn til Upplanda með þeim erindum að boða veislur fyrir sér og ætlaði hann að fara þann vetur að veislum yfir Upplönd því að það hafði verið siður hinna fyrri konunga að fara að veislum hinn þriðja hvern vetur yfir Upplönd.

Hóf hann ferðina um haustið úr Borg. Fór konungur fyrst á Vingulmörk. Hann háttaði svo ferðinni að hann tók veislur uppi í nánd markbyggðinni og stefndi til sín öllum byggðarmönnum og þeim öllum vendilegast er first byggðu meginhéruðum. Hann rannsakaði að um kristnihald manna og þar er honum þótti ábótavant kenndi hann þeim rétta siðu og lagði svo mikið við, ef nokkurir væru þeir er eigi vildu af láta heiðninni, að suma rak hann brott úr landi, suma lét hann hamla að höndum eða fótum eða stinga augu út, suma lét hann hengja eða höggva en engi lét hann óhegndan þann er eigi vildi guði þjóna. Fór hann svo um allt það fylki. Jafnt hegndi hann ríka og óríka. Hann fékk þeim kennimenn og setti þá svo þykkt í héruðum sem hann sá að best bar. Með þessum hætti fór hann um þetta fylki.

Hann hafði þrjú hundruð vígra manna þá er hann fór upp á Raumaríki. Honum fannst það brátt í að kristnihaldið var því minna er hann sótti meir á landið upp. Hann hélt þó hinu sama fram og sneri öllum lýð á rétta trú og veitti stórar refsingar þeim er eigi vildu hlýða hans orðum.