Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/74

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
74. Svikræði Upplendingakonunga


Og er það spurði konungur sá er þar réð fyrir Raumaríki þá þótti honum gerast mikið vandmæli því að hvern dag komu til hans margir menn er slíkt kærðu fyrir honum, sumir ríkir, sumir óríkir. Konungurinn tók það ráð að hann fór upp á Heiðmörk á fund Hræreks konungs því að hann var þeirra konunga vitrastur er þar voru þá.

En er konungar tóku tal sín í milli þá kom það ásamt með þeim að senda orð Guðröði konungi norður í Dala og svo á Haðaland til þess konungs er þar var og biðja þá koma á Heiðmörk til fundar við þá Hrærek konung.

Þeir lögðust eigi ferð undir höfuð og hittust þeir fimm konungar á Heiðmörk þar sem heitir á Hringisakri. Hringur var þar hinn fimmti konungur, bróðir Hræreks konungs.

Þeir konungarnir ganga fyrst einir saman á tal. Tók sá fyrst til orða er kominn var af Raumaríki og segir frá ferð Ólafs digra og þeim ófriði er hann gerði bæði í manna aftökum og manna meiðslum, suma rak hann úr landi og tók upp fé fyrir öllum þeim er nokkuð mæltu móti honum en fór með her manns um landið en ekki með því fjölmenni er lög voru til. Hann segir og að fyrir þeim ófriði kveðst hann hafa þangað flúið, kvað og marga aðra ríkismenn hafa flúið óðul sín af Raumaríki „en þó að oss sé nú þetta vandræði næst þá mun skammt til að þér munuð fyrir slíku eiga að sitja og er fyrir því betra að vér ráðum um allir saman hvert ráð upp skal taka.“

Og er hann lauk sinni ræðu þá viku konungar þar til svara sem Hrærekur var.

Hann mælti: „Nú er fram komið það er mig grunaði að vera mundi þá er vér áttum stefnu á Haðalandi og þér voruð allir ákafir að vér skyldum Ólaf hefja upp yfir höfuð oss að hann mundi verða oss harður í horn að taka þegar er hann hefði einn vald yfir landi. Nú eru tveir kostir fyrir hendi, sá annar að vér förum á fund hans allir og látum hann skera og skapa allt vor í milli, og ætla eg oss þann bestan af að taka, en sá annar að rísa nú í mót meðan hann hefir eigi víðara yfir landið farið. En þótt hann hafi þrjú hundruð manna eða fjögur þá er oss það ekki ofurefli liðs ef vér verðum á einu ráði allir. En oftast sigrast þeim verr er fleiri eru jafnríkir heldur en hinum er einn er oddviti fyrir liðinu og er það mitt ráð heldur að hætta eigi til þess að etja hamingju við Ólaf Haraldsson.“

En eftir það talaði hver þeirra konunga slíkt er sýndist. Löttu sumir en sumir fýstu og varð engi úrskurður ráðinn, töldu á hvorutveggja sýna annmarka.

Þá tók til orða Guðröður Dalakonungur og mælti svo: „Undarlegt þykir mér er þér vefjið svo mjög úrskurði um þetta mál og eruð þér gagnhræddir við Ólaf. Vér erum hér fimm konungar og er engi vor verr ættborinn heldur en Ólafur. Nú veittum vér honum styrk til að berjast við Svein jarl og hefir hann með vorum afla eignast land þetta. En ef hann vill nú fyrirmuna hverjum vorum þess hins litla ríkis er vér höfum áður haft og veita oss pyndingar og kúgan þá kann eg það frá mér að segja að eg vil færast undan þrælkan konungs og kalla eg þann yðarn ekki að manna vera er æðrast í því að vér tökum hann af lífdögum ef hann fer í hendur oss upp hingað á Heiðmörk, fyrir því að það er yður að segja að aldregi strjúkum vér frjálst höfuð meðan Ólafur er á lífi.“

En eftir eggjan þessa snúa þeir allir að því ráði.

Þá mælti Hrærekur: „Svo líst mér um ráðagerð þessa sem vér munum þurfa rammlegt að gera samband vort að engi skjöplist í einurðinni við annan. Nú ætlið þér að þá er Ólafur kemur hingað á Heiðmörk að veita honum atgöngu að ákveðinni stefnu. Þá vil eg eigi þenna trúnað undir yður eiga að þér séuð þá sumir norður í Dölum en sumir út á Heiðmörk. Vil eg ef þetta ráð skal staðfesta með oss að vér séum ásamt dag og nótt þar til er þetta ráð verður framgengt.“

Þessu játtu konungar og fara þá allir samt. Þeir láta búa veislu fyrir sér út á Hringisakri og drekka þar hverfing en gera njósn frá sér út á Raumaríki, láta þegar aðra njósnarmenn út fara er aðrir snúa aftur svo að þeir viti dag og nótt hvað títt er um ferðir Ólafs eða um fjölmenni hans.

Ólafur konungur fór að veislum utan um Raumaríki og allt með þvílíkum hætti sem fyrr var sagt. En er veislur entust eigi fyrir fjölmennis sakir þá lét hann þar bændur til leggja að auka veislurnar, er honum þótti nauðsyn til bera að dveljast, en sums staðar dvaldist hann skemur en ætlað var og varð ferð hans skjótari en ákveðið var upp til vatnsins.

En er konungar höfðu staðfest þetta ráð sín í milli þá senda þeir orð og stefna til sín lendum mönnum og ríkum bóndum úr öllum þeim fylkjum. En er þeir koma þar þá eiga konungar stefnu við þá eina saman og gera fyrir þeim bert þetta ráð og kveða á stefnudag nær sjá ætlan skal framkvæmd verða. Á það kveða þeir að hver þeirra konunga skyldi hafa þrjú hundruð manna. Senda þeir þá aftur lenda menn til þess að þeir skyldu liði safna og koma til móts við konunga þar sem ákveðið var. Sjá ráðagerð líkaði flestum mönnum vel en þó var sem mælt er að hver á vin með óvinum.