Heimskringla/Ólafs saga helga/76

Úr Wikiheimild

Svo er sagt að Ólafur konungur var á veislunni með Ástu móður sinni að hún leiddi fram börn sín og sýndi honum. Konungur setti á kné sér Guttorm bróður sinn en á annað kné Hálfdan bróður sinn. Konungur sá á sveinana. Þá yggldist hann og leit reiðulega til þeirra. Þá glúpnuðu sveinarnir.

Þá bar Ásta til hans hinn yngsta son sinn er Haraldur hét. Þá var hann þrevetur. Konungurinn yggldist á hann en hann sá upp í mót honum. Þá tók konungur í hár sveininum og kippti. Sveinninn tók upp í kampinn konunginum og hnykkti.

Þá mælti konungurinn: „Hefnisamur muntu síðar frændi.“

Annan dag reikaði konungur úti um bæinn og Ásta móðir hans með honum. Þá gengu þau að tjörn nokkurri. Þar voru þá sveinarnir synir Ástu og léku sér, Guttormur og Hálfdan. Þar voru gervir bæir stórir og kornhlöður stórar, naut mörg og sauðir. Það var leikur þeirra. Skammt þaðan frá við tjörnina hjá leirvík nokkurri var Haraldur og hafði þar tréspánu og flutu þeir við landið margir. Konungurinn spurði hann hvað það skyldi. Hann kvað það vera herskip sín.

Þá hló konungur að og mælti: „Vera kann frændi að þar komi að þú ráðir fyrir skipum.“

Þá kallaði konungur þangað Hálfdan og Guttorm. Þá spurði hann Guttorm: „Hvað vildir þú flest eiga frændi?“

„Akra,“ segir hann.

Konungur mælti: „Hversu víða akra mundir þú eiga vilja?“

Hann svarar: „Það vildi eg að nesið væri þetta allt sáið hvert sumar er út gengur í vatnið.“

En þar stóðu tíu bæir.

Konungurinn svarar: „Mikið korn mætti þar á standa.“

Þá spurði hann Hálfdan hvað hann vildi flest eiga.

„Kýr,“ segir hann.

Konungur spurði: „Hversu margar vildir þú kýr eiga?“

Hálfdan segir: „Þá er þær gengju til vatns skyldu þær standa sem þykkst umhverfis vatnið.“

Konungurinn svarar: „Bú stór viljið þið eiga. Það er líkt föður ykkrum.“

Þá spyr konungur Harald: „Hvað vildir þú flest eiga?“

Hann svarar: „Húskarla,“ segir hann.

Konungur mælti: „Hve marga viltu þá eiga?“

„Það vildi eg að þeir ætu að einu máli kýr Hálfdanar bróður míns.“

Konungur hló að og mælti til Ástu: „Hér muntu konung upp fæða móðir.“

Eigi er þá getið fleiri orða þeirra.