Heimskringla/Ólafs saga helga/77

Úr Wikiheimild

Í Svíþjóðu var það forn landsiður meðan heiðni var þar að höfuðblót skyldi vera að Uppsölum að gói. Skyldi þá blóta til friðar og sigurs konungi sínum og skyldu menn þangað sækja um allt Svíaveldi. Skyldi þar þá og vera þing allra Svía. Þar var og þá markaður og kaupstefna og stóð viku. En er kristni var í Svíþjóð þá hélst þar þó lögþing og markaður. En nú síðan er kristni var alsiða í Svíþjóð en konungar afræktust að sitja að Uppsölum þá var færður markaðurinn og hafður kyndilmessu. Hefir það haldist alla stund síðan og er nú hafður eigi meiri en stendur þrjá daga. Er þar þing Svía og sækja þeir þar til um allt land.

Svíaveldi liggur í mörgum hlutum. Einn hlutur er Vestra-Gautland og Vermaland og Markir og það er þar liggur til og er það svo mikið ríki að undir þeim biskupi er þar er yfir eru ellefu hundruð kirkna. Annar hlutur lands er Eystra-Gautland. Þar er annar biskupdómur. Þar fylgir nú Gotland og Eyland og er það allt saman miklu meira biskupsveldi. Í Svíþjóð sjálfri er einn hluti lands er heitir Suðurmannaland. Það er einn biskupdómur. Þá heitir Vestmannaland eða Fjaðryndaland. Það er einn biskupdómur. Þá heitir Tíundaland hinn þriðji hlutur Svíþjóðar. Þá heitir hinn fjórði Áttundaland. Þá er hinn fimmti Sjáland og það er þar liggur til hið eystra með hafinu. Tíundaland er göfgast og best byggt í Svíþjóð. Þangað lýtur til allt ríkið. Þar eru Uppsalir. Þar er konungsstóll og þar er erkibiskupsstóll og þar er við kenndur Uppsalaauður. Svo kalla Svíar eign Svíakonungs, kalla Uppsalaauð.

Í hverri þeirri deild landsins er sitt lögþing og sín lög um marga hluti. Yfir hverjum lögum er lögmaður og ræður hann mestu við bændur því að það skulu lög vera er hann ræður upp að kveða. En ef konungur eða jarl eða biskupar fara yfir landið og eiga þing við bændur þá svarar lögmaður af hendi bónda en þeir fylgja honum allir svo að varla þora ofureflismenn að koma á alþingi þeirra ef eigi lofa bændur og lögmaður. En þar allt er lögin skilur á þá skulu öll hallast til móts við Uppsalalög og aðrir lögmenn allir skulu vera undirmenn þess lögmanns er á Tíundalandi er.