Heimskringla/Ólafs saga helga/87
Nú er þar til máls að taka, er áður var frá horfið, að Ólafur konungur hinn digri fór brúðferð og að sækja festarkonu sína Ingigerði dóttur Ólafs Svíakonungs. Konungur hafði lið mikið og valið svo mjög að honum fylgdi allt stórmenni það er hann mátti ná og hver ríkismanna hafði með sér valið lið bæði að ættum og það er gervilegast var. Lið það var búið með hinum bestum föngum bæði að skipum og vopnum og klæðum. Þeir héldu liði sínu austur til Konungahellu. En er þeir komu þar þá spurðu þeir ekki til Svíakonungs. Voru þar og engir menn komnir af hans hendi. Ólafur konungur dvaldist við Konungahellu lengi um sumarið og leiddi mjög að spurningum, hvað menn kynnu að segja til um ferðir Svíakonungs eða ráðaætlan en engi kunni honum þar víst af að segja. Þá gerði hann menn sína upp í Gautland til Rögnvalds jarls og lét hann spyrja eftir ef hann vissi hvað til bar er Svíakonungur kom eigi til stefnu sem mælt var.
Jarl segir að hann vissi það eigi „en ef eg verð þess var,“ segir hann, „þá mun eg þegar senda menn mína til Ólafs konungs og láta hann vita hvert efni í er ef þessi dvöl er fyrir nokkurs sakir annars en af fjölskyldum þeim er oft kann til bera að ferðir Svíakonungs dveljast meir en hann ætlar.“