Heimskringla/Ólafs saga helga/88

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Ólafur Svíakonungur Eiríksson átt fyrst frillu er Eðla hét, dóttir jarls af Vindlandi. Hún hafði fyrir það verið hertekin og kölluð konungsambátt. Börn þeirra voru Emundur, Ástríður, Hólmfríður ... Enn gátu þau son og var fæddur Jakobsvökudag. En er skíra skyldi sveininn þá lét biskup hann heita Jakob. Það nafn líkaði Svíum illa og kölluðu að aldregi hefði Svíakonungur Jakob heitið. Öll voru börn Ólafs konungs fríð sýnum og vel viti borin. Drottningin var ríklunduð og ekki vel til stjúpbarna sinna. Konungur sendi Emund son sinn til Vindlands og fæddist hann þar upp með móðurfrændum sínum og hélt hann ekki kristni langa hríð.

Ástríður konungsdóttir fæddist upp í Vestra-Gautlandi að göfugs manns er Egill hét. Hún var kvinna fríðust og best orðum farin, glaðmælt og lítillát, mild af fé. En er hún var fulltíða að aldri var hún oftlega með föður sínum og þokkaðist hverjum manni vel.

Ólafur konungur var ríklundaður og óþýður í máli. Honum líkaði stórilla það er landsher hafði gert þys að honum á Uppsalaþingi og heitið honum afarkostum og kenndi það mest Rögnvaldi jarli. Engi tilbúnað lét hann hafa um brúðferðina, svo sem mælt hafði verið um veturinn að hann skyldi gifta Ingigerði dóttur sína Ólafi digra Noregskonungi og fara þá um sumarið til landamæris. En er á leið gerðist mörgum mönnum forvitni á hverja ætlan konungur mundi hafa eða hvort hann mundi halda sáttmáli við Noregskonung eða mundi hann rjúfa sáttina og svo friðinn. Margir voru um þetta hugsjúkir en engi var svo djarfur að þorði konung að spyrja máls um þetta. En margir kærðu þetta fyrir Ingigerði konungsdóttur og báðu hana til að verða vísa hvernug konungur mundi vilja.

Hún svarar: „Ófús em eg til ræðu við konung að tala um skipti þeirra Ólafs digra því að þar er hvorgi annars vin. Hefir hann mér þá einu sinni illa svarað er eg flutti mál Ólafs digra.“

Ingigerði konungsdóttur fékk þetta mál áhyggju mikillar. Var hún hugsjúk og ókát og gerðist henni forvitni mikil hvað konungur mundi til taka. Grunaði hana það meir að hann mundi eigi orð sín efna við Noregskonung því að það fannst á að í hvert sinni varð hann reiður er Ólafur digri var konungur kallaður.