Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/89

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
89. Frá veiði Svíakonungs


Það var einn dag snemma að konungur reið út með hauka sína og hunda og með honum menn hans. En er þeir fleygðu haukunum þá drap konungshaukur í einu rennsli tvo orra og þegar eftir það renndi hann enn fram og drap þá þrjá orra. Hundarnir hljópu undir og tóku hvern fuglinn er á jörð kom. Konungur hleypti eftir og tók sjálfur veiði sína og hældist mjög, segir svo: „Langt mun yður flestum til áður þér veiðið svo.“

Þeir sönnuðu það og segja að þeir ætluðu að engi konungur mundi svo mikla gæfu til bera um veiði sína. Reið þá konungur heim og allir þeir. Var hann þá allglaður.

Ingigerður konungsdóttir gekk út úr herberginu en er hún sá að konungur reið í garðinn snerist hún þannug og heilsaði honum.

Hann fagnaði henni hlæjandi og bar þegar fram foglana og segir frá veiði sinni og mælti: „Hvar veistu þann konung er svo mikla veiði hafi fengið á svo lítilli stundu?“

Hún svarar: „Góð morgunveiður er þetta herra er þér hafið veitt fimm orra en meira er það er Ólafur Noregskonungur tók á einum morgni fimm konunga og eignaðist allt ríki þeirra.“

Og er hann heyrði þetta þá hljóp hann af hestinum og snerist við og mælti: „Vittu það Ingigerður að svo mikla ást sem þú hefir lagt við þann hinn digra mann þá skaltu þess aldregi njóta og hvorki ykkað annars. Skal eg þig gifta nokkurum þeim höfðingja er mér sé eigandi vinátta við en eg má aldregi vera vinur þess manns er ríki mitt hefir tekið að herfangi og gert mér skaða margan í ránum og manndrápum.“

Skildu þau svo sína ræðu og gekk leið sína hvort þeirra.