Heimskringla/Ólafs saga helga/90

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Ingigerður konungsdóttir var nú vís orðin hins sanna um ætlan Ólafs konungs og gerði þegar menn ofan í Vestra-Gautland til Rögnvalds jarls og lét segja honum hvað þá var títt með Svíakonungi og brugðið var öllu sáttmáli við Noregskonung og bað jarl við varast og aðra Vestur-Gauta að þeim mundi þá ósýnn friður af Noregsmönnum.

En er jarl spurði þessi tíðindi sendir hann boð um allt sitt ríki og bað þá við varast ef Noregsmenn vildu herja á þá. Jarl gerði og sendimenn til Ólafs konungs digra og lét segja honum þau orð er hann hafði spurt og svo það að hann vill halda sætt og vináttu við Ólaf konung og beiddi þess með að konungur skyldi eigi herja á ríki hans.

En er þessi orðsending kom til Ólafs konungs varð hann reiður mjög og hugsjúkur og var það nokkura daga er engi maður fékk orð af honum. Eftir það átti hann húsþing við lið sitt.

Þá stóð fyrst upp Björn stallari, hóf þar fyrst mál sitt er hann hafði farið áður um veturinn austur til friðgerðar og segir hversu Rögnvaldur jarl hafði honum vel fagnað. Hann segir og hversu þverlega og þunglega Svíakonungur hafði tekið í fyrstu þeim málum. „En sú sætt er ger var,“ segir hann, „var meir af styrk fjölmennis og ríki Þorgnýs og liðveislu Rögnvalds jarls en af góðvilja Svíakonungs. Og þykjumst vér fyrir þá sök vita að konungur mun því valda er sættinni er brugðið en það mun ekki jarli að kenna. Hann reyndum vér sannan vin Ólafs konungs. Nú vill konungur vita af höfðingjum og af öðrum liðsmönnum hver ráð hann skal upp taka, hvort hann skal ganga upp á Gautland og herja með það lið sem nú höfum vér eða sýnist yður annað ráð upp að taka.“ Hann talaði bæði langt og snjallt.

Eftir það töluðu ríkismenn margir og kom það mjög í einn stað niður að lyktum, að allir löttu hernaðar og mæltu svo: „Þótt vér höfum lið mikið þá er hér saman safnað ríkmenni og göfugmenni en til herfara eru eigi verr fallnir ungir menn þeir er gott þykir að afla sér fjár og metnaðar. Er það og háttur ríkismanna ef þeir skulu fara í bardaga eða orustu að þeir hafa með marga menn til forgöngu og hlífðar sér en eigi berjast oft verr þeir menn er lítið eiga fé heldur en þeir er auðgir eru upp fæddir.“

Og af fortölum þeirra var það ráð konungs að rjúfa leiðangurinn og gaf þá hverjum leyfi heim að fara og lýsti því að annað sumar skyldi hann leiðangur úti hafa af öllu landi og halda þá til móts við Svíakonung og hefna þessa lausmælis. Það líkaði öllum vel.

Fór þá Ólafur konungur norður í Víkina og settist um haustið í Borg og lét þangað draga öll föng þau er hann þurfti til veturvistar og sat þar fjölmennt um veturinn.