Heimskringla/Ólafs saga helga/93

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Eftir um vorið komu til Svíþjóðar sendimenn Jarisleifs konungs austan úr Hólmgarði og fóru að vitja mála þeirra er Ólafur konungur hafði áður um sumarið heitið að gifta Ingigerði dóttur sína Jarisleifi konungi.

Ólafur konungur ræddi þetta mál við Ingigerði og segir að þetta var hans vilji að hún giftist Jarisleifi konungi.

Hún svarar: „Ef eg skal giftast Jarisleifi konungi þá vil eg,“ segir hún, „í tilgjöf mína Aldeigjuborg og jarlsríki það er þar liggur til.“

En sendimenn hinir gersku játuðu þessu af hendi konungs síns.

Þá mælti Ingigerður: „Ef eg skal fara austur í Garðaríki þá vil eg kjósa mann úr Svíaveldi er mér þykir best til fallinn að fara með mér. Vil eg og það til skilja að hann hafi austur þar eigi minni nafnbót en hér og í engan stað verra rétt eða minna eða metorð en hann hefir hér.“

Þessu játaði konungur og slíkt hið sama sendimenn. Seldi konungur trú sína og svo sendimenn til þessa máls. Þá spurði konungur Ingigerði hver sá maður er í hans ríki er hún vill kjósa til fylgdar við sig.

Hún svarar: „Sá maður er Rögnvaldur jarl Úlfsson frændi minn.“

Konungur svarar: „Annan veg hefi eg hugað að launa Rögnvaldi jarli drottinsvikin þau er hann fór til Noregs með dóttur mína og seldi hana þar til frillu þeim hinum digra manni og þeim er hann vissi vorn óvin mestan og skal hann fyrir þá sök þetta sumar uppi hanga.“

Ingigerður bað föður sinn þá að halda trú sína er hann hafði selt henni og kom svo af bæn hennar að konungur segir að Rögnvaldur skyldi fara í griðum á brott úr Svíaveldi og koma eigi í augsýn konungi og eigi til Svíþjóðar meðan Ólafur væri konungur.

Ingigerður sendi þá menn á fund jarls og lét segja honum þessi tíðindi og gerði honum stefnulag hvar þau skyldu hittast. En jarl bjóst þegar til ferðar og reið upp í Eystra-Gautland og fékk sér þar skip og hélt þá liði sínu til fundar við Ingigerði konungsdóttur. Fóru þau öll saman um sumarið austur í Garðaríki. Þá giftist Ingigerður Jarisleifi konungi. Voru þeirra synir Valdimar, Vissivaldur, Holti hinn frækni.

Ingigerður drottning gaf Rögnvaldi jarli Aldeigjuborg og jarlsríki er þar fylgdi. Var Rögnvaldur jarl þar lengi og var ágætur maður. Synir Rögnvalds jarls og Ingibjargar voru þeir Úlfur jarl og Eilífur jarl.

Tilgátur: 1. Aldeigjuborg = Voldugaborg. 2. Vissivaldur = Visvaldis.